04.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

32. mál, stækkun verslunarlóðarinnar í Gerðum

Benedikt Sveinsson:

Eg er ókunnugur í Gerðum, en býst þó við, að ástæða sé til að stækka verzlunarlóðina þar, því að staðurinn er í uppgangi. En eg stóð að eins upp til að benda á, að stækkun verzlunarlóða er yfirhöfuð varhugaverð. Bæir hér á landi eru alment bygðir altof dreift til stórskaða fyrir bæjarfélögin, og verður það því tilfinnanlegra, sem menningin vex, því að öll gjöld þyngjast mjög við það. T. d. vil eg benda á, hve kostnaðarsöm víðátta Reykjavíkur hefir orðið, öll mannvirki hafa orðið stórum dýrari vegna þess, hve bærinn hefir verið bygður um stórt landflæmi, bæði vegagerð, vatnsveita og gasleiðsla. Eg hygg þess ekki vanþörf, að þetta verði tekið til greina í löggjöfinni og hún leitist fremur við að reisa skorður við altof-mikilli dreifing bygðarinnar í kaupstöðum og verzlunarstöðum landsins.