18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1797 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

33. mál, borgarstjórakosning

Framsm. (Magnús Blöndahl):

Eins og háttv. deild mun hafa tekið eftir, hefir nefnd sú, er skipuð var í þetta mál, komið fram með breytingartillögu á þgskj. 499, sem fer fram á, að kjósendur hér í bæ skuli kjósa borgarstjóra, ef umsækjendurnir um borgarstjórastöðuna eru ekki fleiri en 3, en séu þeir fleiri en 3, skal bæjarstjórn Reykjavíkur velja úr 3 af umsækjendunum og skulu svo kjósendur kjósa á milli þeirra. Þetta er, eins og breytingartillagan ber með sér, miðlunartillaga, því að hún fer meðalveginn, og er þannig leitast við að gera bæði þeim til hæfis, sem vilja hafa núverandi fyrirkomulag óbreytt og þeim sem vilja að kjósendur kjósi borgarstjóra meðal allra umsækjendanna. En nefndin hefir, eftir að hún kom fram með tillögu þessa, komist að þeirri niðurstöðu, að hún gæti orðið misbrúkuð og áleit því rétt að fyrirbyggja það. Það geta verið tveir eða fleiri flokkar í bæjarstjórninni og gæti þá sá flokkur, sem er öflugastur algerlega ráðið borgarstjórakosningunni. Þess vegna hefir nefndin komið fram með breytingartillöguna á þgskj. 523, sem fer fram á, að þessir 3 menn skuli valdir af bæjarstjórninni með hlutfallskosningu. Er hér því mjög sanngjarnlega í sakirnar farið og reynt að gera öllum til hæfis.

Eg skal ekki fjölyrða neitt um breytingartillöguna á þgskj. 521, sem fer nálega fram á sama og frumvarpið sjálft. Enda þótt eg álíti að tillagan fari í rétta átt og sé af góðum rótum runnin, hygg eg þó að heppilegast væri eftir atvikum, ef háttv. flutnm. (Sk. Th.) vildi taka hana aftur, því að hún gæti fremur orðið til þess að skaða málið á þessu stigi þess.

Að endingu skal eg geta þess, að mál þetta er fram komið samkvæmt ósk kjósenda hér í bæ og vona eg, að það nái fram að ganga.