18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

33. mál, borgarstjórakosning

Framsm. (Magnús Blöndahl):

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) talaði um, að ef ekki væru nema 2 eða 3 umsækjendur um borgarstjórastöðuna, gæti bæjarstjórnin fengið fleiri til þess að bjóða sig fram, til þess að eins, að bæjarstjórnin gæti ráðið, hverjir af umsækjendunum kæmu til greina við kosninguna. Mér dettur ekki í hug, að þetta geti komið fyrir, því að ef mönnum dettur ekki sjálfum í hug að bjóða sig fram, þá láta þeir heldur ekki bæjarstjórnina nota sig þannig fyrir leiksopp, en annað væri það ekki, þar sem að þeir þó hefðu enga vissu fyrir að ná kosningu. Eg get því ekki séð neina ástæðu til þess að leggja með breytingartillögu háttv. þm. Skal eg geta þess, að eg hefði sjálfur helzt kosið að hafa fyrirkomulagið eins og breytingartillaga háttv. þm. fer fram á, en með því að það mætti svo mikilli mótspyrnu í bæjarstjórninni, áleit eg rétt að miðla málum, og þess vegna hefir nefndin komið fram með breytingartillögur sínar við frv. Það má auðvitað breyta þessu seinna, en eg álít að rétt sé að stíga þetta spor nú. Málið hefir nýskeð verið ítarlega rætt á bæjarstjórnarfundi, og vil eg leyfa mér að mæla með því, að breytingartillögurnar á þgskj. 499 og 523 verði samþyktar, en óska hins vegar að háttv. flutningsm. (Sk. Th.) taki aftur till. sína á þskj. 521.