06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

37. mál, breyting á fátækralögum

Framsm. (Jón Magnússon):

Eg hefi ekki miklu við það að bæta, sem stendur í nefndarálitinu. Nefndin hefir fallist á frumv. með þeirri breytingu, sem tekin er fram í nefndarálitinu, að dvalarsveit sjúklings borgi spítalavist hans í 2 mánuði. Þetta ákvæði er sett til þess að varna því, að dvalarsveitin verði of ör á að leggja menn inn á spítala. 2. gr. frv., sem nefndin vill samþykkja, getur verið að sé óþörf. Eg held, að ákvæði þeirrar greinar séu gildandi eftir fátækralögunum, en ýmsar sveitarstjórnir munu hafa neitað að framfylgja því, eins og hér er fyrirskipað, og mér er kunnugt um það, að Reykjavík hefir neitað að leggja sjúklinga annarsstaðar frá á berklahælið. En þótt þetta ákvæði finnist kannske í fátækralögunum, þá er ekkert á móti að samþykkja það nú, til þess að taka af allan efa, og má þá skoða samþykt þess sem lögskýring sjálfs löggjafans. Eg vona að háttv. deild sýnist nefndin hafa farið varlega í sakirnar og ekki sé ástæða til að breyta meiru að sinni.

Eg skal minnast á brtill. á þgskj. 298. Nefndin hefir sérstaklega rætt fyrri part till. og vorum við tilhneigðir að fallast á hana alla, en eg held það sé talsvert varhugavert, að ráðast í miklar breytingar að lítt hugsuðu máli, sérstaklega við lög eins og fátækralögin, sem bygð eru á föstum grundvelli og fylgja sérstökum reglum. Einkum kom það til athugunar, hvort lækningastyrk skyldi í vissum tilfellum álíta fátækrastyrk, þannig að hann orsakaði réttarmissi. Nefndinni fanst, að annaðhvort yrði slík hjálp aldrei að orsaka réttarmissi, eða menn yrðu að fylgja föstum reglum fátækralaganna. Og ef framfærslusveitin álítur, að einstaka menn séu þess verðir, að fá læknishjálp án þess að það yrði álitinn fátækrastyrkur, þá ættu ýms önnur meðul að vera til þess að koma því í framkvæmd. Þess ber líka að gæta, að verði brtill. samþykt, þá verður nokkuð misrétti milli sveita og kaupstaða, því að ákvæði hennar verður víst sjaldnast hægt að framkvæma í kaupstöðum, vegna þess að ómögulegt verður að fá saman lögmætan fund.

En viðvíkjandi seinni parti tillögunnar, skal eg geta þess, að ef hann yrði tekinn upp sérstaklega og fyrri hlutinn tekinn aftur, mun nefndin leggja til, að hann verði samþyktur. En annars vill nefndin leggja á móti, að tillagan í heild sinni verði samþykt.