10.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

37. mál, breyting á fátækralögum

Björn Þorláksson:

Hv. frsm. (J. M.) hefir tekið ekki óliðlega í brtill., og þakka eg honum fyrir það. Eg þarf því ekki að mæla neitt fram með þeirri tillögu. Eg vil því sérstaklega minnast á 1. lið, sem er þess efnis, að sveitastjórn geti veitt fátækum mönnum styrk til þess að leita sér heilsubótar. Þetta álít eg mikla réttarbót, því að mönnum veitir oft erfitt að komast þangað, sem bezt yrði ráðin bót á veikleika þeirra, og ekkert er dýrmætara en heilsan. Mér datt fyrst í hug, þegar rætt var um berklahælið, að það mundi vera heppilegt, ef sveitastjórn gæti veitt mönnum styrk til þess að komast þangað, án þess það hefði í för með sér nokkurn réttindamissi. Hér er ekki um neina skyldu að tala, heldur að eins um heimild, sem sveitarstjórninni er veitt, og eg hygg, að ekki verði vanbrúkuð. Eg heyrði hv. framsm. (J. M.) ekki mæla neitt á móti tillögunni að öðru leyti en því, að honum væri sárt um, að fátækralögunum yrði mikið breytt að sinni, þar sem þau væru svo ung ennþá og lítil reynsla fengin fyrir því, hvernig þau gæfust. En að mínu áliti verður það sama að gilda um fátækralögin og fjöldamörg önnur lög, sem hefir verið breytt eftir miklu skemmri tíma. Þessi lög eru nú 6 ára gömul, og þetta er fyrsta breytingin, sem á þeim er gerð. Mér finst því ekki vera farið svo hart á stað hér.

Viðvíkjandi 3. lið finst mér sanngjarnt, að það verði ekki reiknaður sveitarstyrkur, þótt fátækum ómagamanni yrði lagt eitthvað, þegar þrot hans stafa af því, að hann á 6 eða fleiri börn, því að sjaldnast þá mun fátækt hans vera sjálfskaparvíti. Annars býst eg við, að hv. meðflutningsm. minn tali um þetta efni, svo að eg hefi ekki fleira að segja, en vil að eins mæla með því, að þessar brtill. verði samþyktar.