06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

41. mál, etirlaun Torfa Bjarnasonar

Flutnm. (Pétur Jónsson):

Frv. þetta þarf ekki meðmæla við, Torfi í Ólafsdal mælir með sér sjálfur. Það er öllum kunnugt, að hann hefir helgað líf sitt framförum í landbúnaði og til þess að viðurkenna það, er frv. þetta komið fram. Það eru engar ofsögur, þótt sagt sé, að hingað til hafi landbúnaðurinn borið menning landsins öðrum atvinnuvegum fremur. Væntanlega verður svo einnig framvegis, en til þess þarf landbúnaðurinn að geta tekið þeim framförum og fullnægt þeim skilyrðum, sem breyttir tímar, auknar framfarir annarsstaðar og breytt lífskjör heimta. En í þá átt hefir enginn einn núlifandi maður unnið slíkt starf, sem Torfi í Ólafsdal. Eg vil að eins nefna tvö dæmi: Hann hefir verið aðalfrömuður búnaðarskólanna hér á landi, stofnaði fyrstur búnaðarskóla á eigin ábyrgð og varði til þess efnum sínum og kröftum. Mun það vera einmælt, að flestar framfarir í landbúnaði vorum eru þaðan sprotnar, að allmiklu leyti beint og óbeint, enda hefir skóli Torfa borið af öðrum skólum, og lærisveinar hans haft ómetanlegt gagn af þeim tíma, sem þeir voru undir hans hendi. Annað er það, hve mjög hann hefir stutt að endurbótum á búnaðarverkfærum vorum, það eru ekki eingöngu ljáirnir, sem bera hans menjar, margt annað mætti nefna, og munu slíkar endurbætur á sínum tíma verða nefndar í menningarsögu landsins.

Það hefir þótt hlýða, að heiðurslaun þessi væru veitt með sérstökum lögum, en ekki á fjárlögunum, slík laun eru ekki veitt öðrum en afbragðsmönnum og þarf því enginn að óttast, að hættulegt fordæmi skapist með þessu frumv. Þess skal loks getið, að fjárlaganefndinni hefir borist skjal, þar sem Torfi skýrir frá, að hann muni ekki framvegis geta notað styrk þann, sem honum hefir áður verið veittur til verklegra framkvæmda í Ólafsdal, og sé því þýðingarlaust að halda honum áfram. Vona eg að þetta styðji að því, að frumv. fái góðar móttökur hér í deildinni.