09.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

44. mál, kaup á Skálholti

Flutningsm. (Jón Þorkelsson):

Eg hélt, að mál þetta hefði verið svo vel upplýst á síðasta þingi, að það væri ljóst í flestum greinum og ekki ástæða til þess að skýra það nú. Það er aðgætandi, að hér er ekki um neina skipun að ræða til stjórnarinnar um að kaupa þessa jörð, heldur einungis heimild til þess, ef hún sér sér það fært, fyrir það verð sem hún fæst keypt fyrir, eða með öðrum orðum sæta lagi, ef góð kjör bjóðast. Að færa ástæður fyrir því, hvers vegna jörðina eigi að kaupa, hélt eg að ekki þyrfti. Það eru sömu ástæðurnar, sem landssjóður hefir áður haft til þess að eiga vissar jarðir í Þingvallasveitinni: Brúsastaði og Kárastaði, þar sem mest er um menjar úr sögu vorri frá liðnum öldum. Og ef nokkursstaðar er fornmenjar að finna, þá er það einmitt í Skálholti, því að þar hlýtur öll jörð að vera full af fornmenjum, ekki einasta heima um tún og kirkjugarð, sem eiginlega þyrfti nú að grafast upp rækilega, heldur miklu víðar.

Þá er og þess að gæta, að þótt staðurinn sé í góðra manna höndum og jörðin vel setin, þá er þess þó ekki að vænta, að sögumenjum jarðarinnar sé sá gaumur gefinn, sem vera ætti og það opinbera er skyldugt að gera, og er það oss vansi, einkum frammi fyrir útlendingum. Svo er mér og kunnugt um það, að kirkjustjórn þessa lands hefir allmikinn áhuga á að hressa við staðinn, með því að þar sé vandað til kirkjugerðar við hans hæfi.

Það þykir galli á þessu frumvarpi, að kaupverðið sé ekki ákveðið, en eg hygg, að þar yrði farið líkt að og þá er þjóðjarðir eru seldar, að það yrði látin fara fram virðing á staðnum eða annars kostar færi kaupin að samkomulagi.

Í sambandi við þetta mál, mætti og þess minnast, að réttast væri að hætta við alla þjóðjarða- og kirkjujarðasölu. Sú er einmitt stefna tímans, að ríkið eigi allar fasteignir og því ætti landssjóður að kaupa jarðir en ekki selja. Að vísu hefir lítið bólað á þessari stefnu hér, heldur hafa menn þvert á móti fleygt stundum fyrir lítið burtu beztu jörðunum, sem landið hefir átt. En um þessa jörð stendur auk þess sérstaklega á, svo að það verður að treysta þingi og stjórn til þess, þó þau stundum hafi látist blekkjast, er um aðrar jarðir var að ræða, að aldrei fari svo um þessa, svo þjóðfræg sem hún er. Og það eru jafnvel ýmsar fleiri jarðir, sem skylt væri að landið ætti, þó að tillögur um það liggi ekki fyrir hér.

Eg ræð frá að samþykkja hina órökstuddu dagskrá frá háttv. þm. Mýr. (J. S.). Þessi heimild getur aldrei orðið til skaða, en hún gæti orðið að happi, ef vel fellur.