08.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (2195)

58. mál, sjómannavátrygging

Flutningsmaður (Sigurður Sigurðsson):

Um þetta frumv. er það að segja, að það er fram komið eftir áskorun ýmsra manna, bæði í mínu kjördæmi og víðar, sem lögin frá 30. júlí 1909 taka mest til. Í verstöðunum í Árnessýslu er almenn óánægja með þessi lög um vátrygging sjómanna.

Þetta frumvarp ræðir að eins um sjómenn, er stunda fiskiveiðar á vélarbátum og róðrarbátum, en raskar ekkert lögunum, þegar um þilskip er að ræða. Áskoranir frá verstöðunum í Árnessýslu og Snæfellsnessýslu, sem óska að lögunum sé breytt, liggja frammi á lestrarsalnum. Eg vænti þess, að deildin taki máli þessu vel og setji nefnd í það til þess að athuga það.

Óánægjan með lögin frá 30. júlí 1909 er mjög almenn, og ekki að ástæðulausu. Fáist lögunum ekki breytt, óska kjósendur mínir, sem stunda sjó þar eystra, að þeir verði undanþegnir ákvæðum laganna. Eg skal líka geta þess, að í veiðistöðunum austanfjalls stendur sérstaklega á. Þar eiga sjómenn styrktarsjóði, sem eru orðnir allstórir og aukast árlega. Þessa sjóði hafa þeir mikinn hug á að efla og kosta kapps um að gera þá svo öfluga, að þeir geti útborgað jafnháan styrk og nú er ákveðinn í lögum um vátrygging sjómanna.

Annars skal eg geta þess, að það er víðar en í Árnessýslu og Snæfellsnessýslu, að menn eru óánægðir með lögin. Jafnvel hér í Reykjavík eru menn talsvert óánægðir með þau, og svo er sjálfsagt víðar.

Að lokum vil eg leyfa mér að stinga upp á 5 manna nefnd.