08.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

58. mál, sjómannavátrygging

Stefán Stefánsson:

Áður en gengið er til atkvæða, vildi eg mælast til, að flutningsm. (S. S.) gefi skýringar um það á hverju byggist, að farið er fram á svo gagngerðar breytingar á lögunum um vátrygging sjómanna, sem hér er gert. Er þeim það fyllilega ljóst, hvort sjóðurinn má við því, að færa vátryggingargjöldin niður nær því um ? hluta fyrir allan þann fjölda manna, sem er á vélarbátum og róðrarbátum kringum land alt. Og hvort hættan er þessum mun minni á bátum en skipum, að nemi ?. Lögin hafa nú ekki staðið nema rúmlega eitt ár, svo reynslan er lítil fyrir því, að gjaldið sé of hátt, en á því hlýtur frumv. að byggja, að svo sé, þar sem það gerir ráð fyrir að eins 10 aura iðgjaldi frá hverjum skipverja vikulega, í stað þess að í lögunum eru það 18 aurar, og þess utan þá losar það útgerðarmann við alt vátryggingargjaldið, sem hann á nú að gjalda að þriðjungi á móts við skipverja, eða 6 aura fyrir hvern á viku.

Nú hefir sjóðurinn, sem stofnaður var með lögunum frá síðasta þingi, tekið við eignum og skuldbindingum vátryggingarsjóðsins frá 10. nóv. 1903, og eftir þeim upplýsingum, sem eg hefi getað aflað mér, þá hefir sjóðurinn síðustu 4 ár greitt í vátryggingarupphæðum 52,500 kr., skuldar lán út á vaxtabréf 3,500 kr., og auk þess hvíla á sjóðnum vátryggingarupphæðir, sem verða að greiðast á næstu árum, fullar 24,000 kr. En hrein eign sjóðsins nú mun vera sem næst 15,500 kr.

Eg sé því ekki, að það sé nokkur ástæða til þess að færa vátryggingargjaldið niður, þegar maður lítur á hag sjóðsins. Að vísu er nokkur trygging fyrir því, að sjóðurinn geti enn greitt nokkrar vátryggingarupphæðir, því árstekjur hans nema talsverðri upphæð, og hrökkvi hann ekki til, leggur landssjóður fram það sem á vantar, alt að 15,000 kr. En það er hvorki hyggilegt að eyða upp sjóðnum eða nota lánsheimildina úr landssjóði, nema brýnustu nauðsyn beri til þess.

Eg hefi þá gert grein fyrir, hvernig málið horfir við í mínum augum, en máske flutningsmenn geti fært einhverja sennilega ástæðu fyrir því, að frumv. eigi að ganga fram; ef þeir geta það ekki, þá er frumv. ekki orð í tíma talað.

Þá er talað um lögskráning á vélar- og róðrarbáta, sem á sér engan stað, enda er hvorki sýslumönnum né hreppstjórum upp á lagt að lögskrá þessa báta, en hver á þá að gera það? Komi ekki fram nokkurn veginn sæmilegar ástæður fyrir breytingunni, vil eg að frumv. sé felt, því án þess tel eg ekki rétt að breyta lögunum eftir að eins eins árs reynslu.