04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (2200)

58. mál, sjómannavátrygging

Framsögum. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Eg sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um frumv. þetta, en vil geta þess, að einn af nefndarmönnunum, flutningsm. málsins, (S. S.), hefir ekki getað fylgst með okkur hinum, sem í nefndina voru skipaðir. Eins og nefndarálitið ber með sér, þótti meiri hl. nefndarinnar ógerlegt að breyta lögunum í það horf, sem frumv. fer fram á, þar sem lögin hafa gilt að eins rúmt ár, og reynslan því lítil orðin, en breytingarnar miða að því, að veikja þá trygging, sem lögin gefa, þar sem það fer fram á, að nema burt nær því ? af árlegum tekjum sjóðsins. Raunar leggur flutningsmaður nú til, að breyta þessari tillögu sinni lítið eitt, en eftir því, ætlast hann þó til, að þær lækki um helming. Nefndin getur ekki álitið þetta tiltækilegt. Hún skrifaði stjórn vátryggingarsjóðsins og spurðist fyrir um, hvort gerlegt mundi, að tryggingin næði yfir lengri tíma árs, en stjórnin svaraði á þá leið, að hún áliti óhyggilegt að breyta til í þá átt, fé sjóðsins væri svo lítið, að hann mætti ekki við miklum misfellum, og þá alls ekki gera víðtækari ábyrgðarskylduna. Þetta var okkur nefndarmönnunum fullljóst áður, en okkur þótti samt réttara að fá umsögn sjóðsstjórnarinnar. Annars vil eg benda þeim mönnum á, sem eru að tala um þessi »geysiháu iðgjöld« til sjóðsins, að þau eru í eðli sínu alls ekki berandi saman við venjuleg líftryggingargjöld, þar sem greiðsla gjaldsins nær að eins yfir þann tíma, sem hættan vofir mest yfir. Vilji menn t. d. athuga hag sjóðsins, ef til þess hefði komið, að hann hefði þurft að greiða vátryggingarupphæðir fyrir þá 57 menn, sem fyrir sérstaka heppni og tilviljun björguðust úr sjávarháska fyrir fáum dögum síðan, þá er það ljóst, að hann hefði ekki nándanærri til þess hrokkið.

Eg mun svo ekki við þessa umr. minnast nánar á einstakar brtill. flutnm., mér mun gefast tækifæri til þess við 2. umr.