04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

58. mál, sjómannavátrygging

Framsögum. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Þetta frv. er komið fram að mér virðist af því aðallega að iðgjaldið til vátryggingarsjóðsins þykir of hátt og óánægjan, sem háttv. þm. eru að tala um, að sé með lögin, stafi af því og jafnframt, að greiðsluskylda sjóðsins sé of takmörkuð. Hvað iðgjöldin til sjóðsins snerta, þá hefi eg drepið á afstöðu nefndarinnar, að hún lítur svo á, að með því að lækka þau að nokkrum mun, þá sé það til eyðileggingar fyrir sjóðinn.

Um óánægju manna með lögin, að því sem eg þekki til, þá hygg eg að mér sé óhætt að fullyrða, að allflestum sjómönnum við Eyjafjörð hafi lögin verið mjög kærkomin og jafnvel því kærari, sem þeir voru fátækari og höfðu þyngri fjölskyldu; get eg í því sambandi getið þess, að í vor sem leið fórst skip með 12 mönnum af Eyjafirði, sem létu eftir sig sumir sárfátækar fjölskyldur og aftur aðrir örvasa foreldra, sem einasta sumir hverjir geta varist þess, að leita til sveitarinnar, af því að þeir fengu 100 kr. úr vátryggingarsjóðnum, og eiga vissu fyrir því, að fá þá upphæð um næstu 3 ár.

Eg er viss um það, að í mínu kjördæmi yrði megn óánægja, ef lögin yrðu afnumin, eg segi afnumin af því, að það væri sama sem að afnema þau, að samþykkja þetta frv., sem fer fram á að minka tekjur sjóðsins um helming. Eftir minni reynslu greiða menn gjöldin með glöðu geði, enda hafa Eyfirðingar engum óskum hreyft um það, að fá lækkuð gjöld til sjóðsins.

Þar sem háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) talaði um, að til væru líkir sjóðir í Árnessýslu, þá hefir það enga þýðingu gagnvart almennum lögum og engin ástæða í því að fara að undanskilja sérstök svæði þess vegna, því vart munu vátryggingarupphæðirnar þykja of háar, þegar slysin bera að höndum, þótt nokkru hærra sé greitt, en þær 400 kr., sem úr þessum sjóði ber að greiða.

Háttv. þm Snæf. (S. G.) var að tala um, að engin ákvæði væru um það, að aðstandendur þeirra manna, sem deyja af slysum á sjó, fengju vátryggingarstyrk. Væri slíkt ákvæði sett inn, þyrfti þá einnig að hækka iðgjöldin til sjóðsins að mun, en yrði þannig löguðu ákvæði bætt inn í lögin, hygg eg, að mjög vandlega þyrfti um það að búa til þess, að ekki gæti af því leitt misklíð og jafnvel málaferli. Það væri máske ástæða til, að ákveða enn ljósar, að lögin nái einnig til þeirra sjómanna, sem drukkna í lendingu. En eg verð nú að líta svo á, að vilji slíkt slys til á þeim tíma, sem maðurinn er vátrygður fyrir, þá sé ekkert efamál, að sjóðnum beri að greiða vátryggingarfé hans vegna.

Eg ræð háttv. þingd. til að fella frv. og get ekki séð, að það sé til nokkurra bóta, nema því að eins, að landssjóður verði látinn leggja í sjóðinn talsverða upphæð árlega, eða þá að öðrum kosti að vátryggingarupphæðirnar úr sjóðnum verði lækkaðar að mun; en það sýnist mér hvort á sinn hátt misráðið.