19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1839 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

58. mál, sjómannavátrygging

Sigurður Gunnarsson:

Mér skildist á ræðu háttv. framsögum. meiri hl. (St. St.), að hann liti svo á, að allar breyt.till., sem fram hafa komið, miðuðu að því að eyðileggja vátryggingarsjóðinn, eða að minsta kosti girða fyrir að sú nytsemdarstofnun geti komið að fullum notum. Þetta hygg eg vera ofmælt. Raunar las hann upp skýrslu um sjóðinn um það eina ár, sem hann hefir starfað, og gat þess, að sjóðurinn hefði beðið tekjuhalla. Mér kemur ekki til hugar að vefengja það, að þessi skýrsla sé rétt. En eg vil benda á það, að til þess heimila lögin 1909 sjóðinum fé úr landssjóði, að grípa megi til þess, ef nauðsyn er, þótt betra sé, ef kostur er, að láta það ónotað.

Ennfremur vil eg geta þess, að þótt hann gæti um slysfarirnar þetta eina ár, þá átti hann eftir að sýna, hvert meðaltal er í manndauða á sjó, einmitt á því ári. Eg gat þess í ræðu minni um daginn, eftir skýrslu sjómanna undir Jökli, að eftir reynslu manna þar í 20 ár, mundi upphæðin, sem þeir hefðu orðið að gjalda í sjóðinn, ef hann hefði verið til öll þau ár, nema 22 þús. kr., en í þess stað fengið á móti 8—9000 kr., og það væri sannarlega óþarflega mikill gróði fyrir sjóðinn.

Eg heyri á háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), að svipuð sé reynsla manna í hinum miklu veiðistöðum í Árnessýslu.

Af framangreindum ástæðum get eg ekki annað ætlað, en óhætt sé að færa niður iðgjöldin til sjóðsins. Eg mun því hallast að breyt.till. háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), láta mér hana nægja, úr því hin komst ekki að og að sjálfsögðu, ef þær ná ekki fram að ganga, að breyt.till. háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um að færa iðgjaldið niður úr 18 aurum í 15 aura fyrir háseta og úr 6 aurum niður í 3 aura fyrir útgerðarmenn, ef till. háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) fellur.

En auk þessa atriðis, að eg álít óhætt að færa niður iðgjöldin, skal eg benda á það, þótt eg viðurkenni að lögin frá 1909 horfi í rétta átt, að í nefndarálitinu stendur, að ekki séu öll ákvæði laganna vel ljós, þótt nefndin vilji nú ekki fallast á neinar breyt.till., jafnvel ekki þær, sem miða að því að skýra frumvarpið. Það hefði þó mátt ætla, að vert hefði verið að skýra t. d. orðið »vertíð«, það er er ekki neitt »juridisk Begreb«, ef svo má að orði kveða, og hefði ekki verið úr vegi að slá því föstu, hvað með því er meint. Eg hefi heyrt það á sýslumanninum í Snæfellsnessýslu, að honum hefir þótt erfitt að úrskurða, hvað rétt væri í þessu efni, svo og um heiti bátanna, eins og eg hefi margbent á. Ennfremur segir nefndin í niðurlagi nefnarálitsins, að ákveðin stærð bátsins mundi vera betri skýring á því til hverra báta lögin næði. En alt um það vill nefndin þó ekki hallast að breytingum á lögunum, sem miða í þessa átt. Þetta er harla undarlegt.

Eg legg mikið upp úr þeirri brt.till. háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), að eftirkomendur þeirra manna, sem farast af slysförum, sem beint standa í sambandi við útveginn, geti orðið styrks aðnjótandi. T. d. eru víða svo illar lendingar, að það væri hart, ef þeir, sem svo farast, gætu eigi heimfærst undir lögin.

Af greindum ástæðum hallast eg að breyttill. á þgskj. 301 eða 547, ef þær hljóta meiri náð fyrir augum þingdeildarinnar, og vona eg, að deildin verði líknsamari eða sanngjarnari í atkv.gr. sinni um málið, heldur en mér finst háttv. framsögum. (St. St.) vera í ræðum sínum.