10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

65. mál, skipun prestakalla

Flutnm. (Sigurður Gunnarsson):

Undirtektir hins háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) í þessu máli, koma mér nokkuð á óvart. Það er auðvitað alveg satt, að á síðasta þingi var svo mörgum frv. þess efnis hrúgað inn á þingið, að það varð einnig þeim frumv., sem réttmæt voru, að bana. Eg þykist geta fullyrt, að frv. það, sem hér liggur fyrir, sé svo nauðsynlegt, að sjálfsagt sé, að það fái góðan byr hér í deildinni, og þar sem hv. þm. talaði um viðlíka kröfu úr Árnessýslu, þá vita allir, hversu ólíkt háttar til í Snæfellsnessýslu og Árnessýslu, að þess leyti. Háttv. þm. talaði um þá djörfung mína, að eg hefði flutt þetta frv., en eg get látið hann vita, að meira þarf til að hræða mig, en stór orð og digurbarkaleg, og það tel eg meiri djörfung að sitja söfnuðum í ljósi fyrir réttmætum kröfum.