21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

119. mál, tollur af póstsendingum

Framsögum. (Benedikt Sveinsson):

Jafnframt því sem meiri hluti skattanefndarinnar ber fram frumvarp um farmgjald, þá leggur hún til að lagt sé gjald á þann varning, sem til landsins flytst í pósti og ekki er tollskyldur að öðru leyti. Frumvarp þetta er fylgifiskur farmgjaldsfrumvarpsins, og má ganga að því vísu, að bæði frumvörpin sæti sömu örlögum á þinginu. Frumvarpið er sett til þess að varna því, að menn skjóti sér undan farmgjaldi með því að senda vörurnar í pósti og er því nauðsynlegt, að það nái fram að ganga jafnframt farmgjaldsfrumvarpinu.

Eins og frumvarpið liggur fyrir, þarf það nokkurra orðabreytinga. Við leggjum því til, að orðin »í landsjóð« falli burt, því að gjaldið rennur í póstsjóð en ekki landsjóð, þótt hvorttveggja komi í einn stað niður. Ennfremur, að í stað »póstkröfusendingar« komi »póstsendingar«.

Breytingar þessar eru svo sjálfsagðar, að ekki tekur að orðlengja um þær frekara.