21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

149. mál, tollvörugeymsla o. fl.

Flutningsm. (Björn Kristjánsson):

Eg hefi leyft mér að koma með þetta stutta frumvarp, af því ekki er leyfilegt að flytja vín til landsins lengur en til loka þessa árs. Eins og nú stendur, þá má ekki dragast að greiða tollinn lengur en eitt ár. Það væri því mikill óhagnaður fyrir kaupmenn, sem þurfa að flytja inn vín nú fyrir árslokin að verða að hafa greitt tollinn af öllum sínum 3 ára birgðum fyrir árslok 1912. Þess vegna hafa ýmsir þeirra óskað þess, að frestur sá, sem veittur er í lögunum 1907 um tollvörugeymslu og tollfrest væri lengdur um eitt ár þannig, að fresturinn til tollgreiðslu á ölföngum væri 2 ár. Ef þetta er samþykt, þá hefðu kaupmenn enga örðugleika af því, þótt þeir yrðu að birgja sig upp með vín til 3 ára. Ef þessu yrði breytt með tollgreiðslufrestinn, eins og frv. fer fram á, þá væri þar með numin burt ástæðan til þess að fresta bannlögunum, því það er engin ástæða að ætla, að landsjóður missi neins í af tolli, ef þessu er þannig fyrir komið. Aðalatriðið er, að landsjóður fái sínar tekjur og að kaupmönnum sé ekki gert of örðugt með greiðslu tollsins.

Eg býst við, að þeir, sem greiddu atkv. með bannlögunum síðast, en hefir snúist hugur síðan, muni ekki gera sig ánægða með frv. En það væri að lítilsvirða atkvæði þjóðarinnar, ef menn færu nú að breyta þeim lögum, að henni fornspurðri, sem eru þau einu lög, sem hafa verið borin undir atkvæði hennar.