21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

149. mál, tollvörugeymsla o. fl.

Jón Ólafsson; Herra forseti! Eg verð að taka mér í munn hið fornkveðna:

Longe alia mihi mens est, patres conscripti!

Eg er í þessu máli á algerlega gagnstæðu máli við heiðr. flutningsm. þessa frv., sem væri réttnefnt: frv. til þriggja ára eflingar brennivínsdrykkju í landinu.

Vel veit eg það, að ekki hefir háttv. flutningsm. haft þennan tilgang, en þessi hlýtur þó eina teljandi afleiðing þess að verða.

Eg þykist vita, að tilgangur frv. sé sá, að drepa frv. það um lenging á aðflutningsleyfi áfengra drykkja, sem háttv. þm. Ísafjarðarkaupstaðar (Sig. Stef.) hefir borið fram í Ed.

Eg verð að geta þess, hversu eg sem bannlagamaður lít á hvort þetta frv. um sig.

Frv. þm. Ísafjarðarkaupstaðar (Sig. Stef.) miðar til þess, og til þess eins, að auka tekjur landsjóðs af áfengistolli þessi ár, sem eftir eru til þess er bannlögin ná gildi (1. jan. 1915).

Og hvað sem því að öðru leyti líður, er það ómótmælanlegt, að það hlýtur að ná tilgangi sínum.

Hitt er annað mál, að tímatakmarkið (3 ár) er óþarflega langt, að því er brýnar fjárhagsþarfir snertir.

En eg heyri, að sumir bannlagavinir álíta þennan 3 ára tíma hagfeldastan fyrir bannlögin og þeirra tilgang — þó að eg sé ekki allskostar á því máli.

Eg vil ekki efa, að tilgangur þessa frv. (651) eigi að vera, að auka nokkuð tekjur landssjóðs af áfengistolli, með því að gera áfengissölum léttara fyrir að flytja landsmönnum nóg að drekka þangað til 1. jan. 1915.

En eg vil spyrja: hvers er mest þörf fjárhagslega? Auðvitað er sú þörf brýnust, að sjá fyrir því fjárhagstímabili, sem í hönd fer, — þangað til næsta þing kemur saman og þing og stjórn geta samið lög um nýja tekjustofna handa landssjóði eða auknar tekjur af núverandi tekjustofnum. Það er verk, sem nú er ekki auðið að vinna nema til bráðabirgða sakir vanrækslu síðustu stjórnar á að hafa nokkurn undirbúning til þess.

En er það gert með þessu frv.?

Því miður alls ekki.

Óhjákvæmilegar afleiðingar þess eru auðsæjar.

1. Fyrsta og beinasta afleiðingin er sú, að efla innflutning brendra drykkja (brennivín, cognac, romm, arrak, whisky). Þetta gerir frv. með því að lengja tollgreiðslufrestinn (eða tollvörugeymsluna).

2. Að varna því, að á þessum tíma verði neytt í landinu óskaðlegustu áfengu drykkjanna, svo sem eru öl, landvín, Rínarvín og þess konar drykkir.

3. Að varna því, að landssjóður fái nema sem allra minst á næsta fjárhagstímabili af tollgjöldunum, með því að fresta greiðslu af öllu, sem neytt verður síðasta árið, fram að síðustu dögum fjárhagstímabilsins (ársloka 1914).

Munur frumvarpanna er sá, að innflutningslengingin dreifir tolltekjunum jafnt á árin, gerir það að verkum, að landssjóður fær venjulegar tolltekjur af áfengi hvert ár, bætir þannig verulega fjárhag næsta fjárhagstímabils, eins og mest er líka þörfin á.

Og það frv. gerir skaðlitlu drykkjunum, öli og léttum vínum, auðið að sporna við brennivínsdrykkjunni.

Frumv. það, sem hér liggur fyrir, hlýtur aftur á móti að neyða alla þá, sem einhverra áfengra drykkja vilja neyta, til að drekka brennivínsdrykki. Því er það, að þetta frv. er réttnefnt: frv. til eflingar þriggja ára brennivínsdrykkju í landinu.

Það nafn er réttnefni, það lýsir í einni setningu skýrt og ljóst efni frumvarpsins og afleiðingum þess.