21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

149. mál, tollvörugeymsla o. fl.

Jón Jónsson 1. þm. S.-Múl.:

Eg gæti raunar sparað mér ómakið að taka til máls, því hv. samþingismaður minn hefir tekið svo greinilega fram flest af því, sem eg vildi sagt hafa. Ef frumv. þetta nær fram að ganga, þá verður afleiðingin sú, að miklu meira brennivín verður flutt inn en ella. Það kostar svo lítið í innkaupi, að auðvelt verður fyrir kaupmenn að afla sér birgða af því. Aftur á móti hverfur ölið að kalla strax, því að það þolir ekki geymslu, og góð vín munu og hverfa, því að kaupmönnunum verður um megn að birgja sig upp af svo dýrri vöru. Það verður því »bara brennivín«, sem menn eiga kost á að staupa sig á, þegar líður á árið 1912 og þar á eftir, en væntanlega getur orðið nóg af því. Það er þetta, sem hlýtur að verða afleiðingin af þessu frv. Það vona eg, að allir óblindaðir menn geti séð; svona verkar það í bindindisáttina.

Háttv. flutnm. (B. K.) nefndi eitt, sem oft er notað af bannmönnum, en er jafn vitlaust fyrir því: Að það sé að misbjóða þjóðinni að hagga við bannlögunum. Á síðasta þingi var því haldið fram af mér og öðrum, að réttast væri að skjóta bannmálinu aftur undir atkvæði þjóðarinnar. Þessu börðust bannmenn móti, þeir þorðu ekki og þora ekki enn að skjóta málinu til þjóðarinnar. Þeir vita sjálfir vel, að það eru einmitt þeir, sem eru að misbjóða þjóðinni með öllu þessu bannfargani.