29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

149. mál, tollvörugeymsla o. fl.

Jón Magnússon:

Eg er eins mótfallinn þessu frumv og frestun bannlaganna. Það er ekki nema til að gabba sjálfan sig, ef landssjóður færi að byggja tekjur sínar á slíku frv. sem þessu. Svo er það að minsta kosti að tilganginum til, á móti stefnu þeirri, er bannlögin eru af sprottin, því að hún er sú, að varna á allan hátt, að áfengi flytjist inn landið. Þannig virðist mér frumvarpið verða að skoðast frá bannlagamanna sjónarmiði, annaðhvort einkis virði eða verra, nefnilega ef tekjurnar ykjust þess vegna.

Það var eitt, sem mig stansaði á í nefndarálitinu, það var það, að það gerði ekki mikið til með brendu drykkina, því útlendingar drykkju mest af þeim. En nú er þess að gæta, að það eru brendu drykkirnir, sem gefa mestallan tollinn, hinna gætir tiltölulega lítið. Tvö síðustu árin hefir tollurinn af áfengi hér í Reykjavík numið rúmum 90 þús. kr., en þar af hefir tollurinn af brendum drykkjum numið um 7/9. Þessi ástæða nefndarálitsins er því beint stýluð gegn bannlögunum, þótt það hafi máske ekki verið tilgangur nefndarinnar.