11.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

134. mál, barnafræðsla

Flutnm. (Jón Jónsson N.-Múl.):

Eg gerði grein fyrir því við 1. umr. málsins, hvers vegna eg sæi ekki ástæðu til, að nefnd væri kosin í það. Það var athugað svo vel á síðasta þingi, sem félst á að fresta nokkrum ákvæðum laganna um hríð. Eg hefi nú leyft mér að koma fram með frumv. þess efnis, að framkvæmd skólaskylduákvæðisins sé dregin á langinn 2 ár enn þá. Það er farið fram á í frumv., að 15. gr. laganna komi ekki í gildi fyr en eftir 2 ár. 15. gr. hljóðar svo:

Fræðslusamþyktir skulu samdar og samþyktar í hverju héraði eigi síðar en svo, að þær geti legið fyrir yfirstjórn fræðslumála til staðfestingar 1. janúar 1910, ella er héraðið frá byrjun næsta skólaárs skylt til annaðhvort að halda uppi farskóla þannig löguðum, að hvert barn á skólaaldri geti fengið að minsta kosti 2 mánaða fræðslu á ári, eða, ef fræðslunefnd kýs það heldur, að ráða kennara, einn eða fleiri eftir þörfum, til eftirlits með heimafræðslu. Ef fræðslunefnd kýs heldur að halda uppi farskóla, skulu foreldrar og þeir aðrir, er hafa börn á skólaaldri til framfærslu, skyldir til að láta þau njóta farkenslunnar, og gilda um undanþágur frá farskólaskyldunni og brot gegn henni, sömu reglur og settar eru, að því er skólahéruð snertir, í 6. gr., um samskonar efni, með þeirri einni breytingu, að fræðslunefnd kemur í stað skólanefndar.

Þetta frumv. hefi eg komið fram með vegna þess, að skólaskylduákvæðið hefir víða vakið allmikla gremju. Menn hafa verið óánægðir út af því, að þeir séu neyddir til að hafa farskóla í sveitum, hvort sem fræðslunefnd hefir lagt það til eða ekki. Það er líka mismunandi, hvernig hægt er að framkvæma þetta til sveita, þar sem strjálbygt er og slæm húsakynni. Vitaskuld þurfa börnin fræðslu, en mín og margra annara meining er, að holt sé heima hvað, og eg ber það traust til almennings, að hann sjái börnum sínum fyrir nægilegri fræðslu á bernskuskeiðinu, þótt þeim sé ekki dembt á barnaskóla. Eg legg meiri áherzlu á að hafa góðan unglingaskóla, þar sem börnunum verður kenslan að miklu meiri notum, þegar þau eru orðin þroskaðri, en á barnaskólum, sem þeim er troðið í á unga aldri og verður lítið úr fræðslunni. Eg vil því vona, að háttv. deild fresti ákvæðinu enn um hríð, einkum þar sem óskir hafa komið um það á þingmálafundum. Eg álít réttara að bíða dálítið, svo að það sjáist, hvort menn af sjálfsdáðum vilja fylgja ákvæðinu eða ekki. Ef sú verður reynslan, að þeir vilja það ekki, þá álít eg ekki rétt að neyða menn til þess.