11.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

134. mál, barnafræðsla

Pétur Jónsson:

Þegar fræðslulögin voru á ferðinni hér á þinginu, var eg sízt hvatamaður þess, að fræðsluskylduákvæðið gengi í gegn. Min skoðun var, að bezt mundi að leggja þetta atriði í vald sveita eða fræðsluhéraða með samþyktarheimild, en ekki með almennri lagaskyldu. En úr því þetta varð nú ofaná, og lögunum hefir ekki verið breytt gersamlega í þessu efni, þá álít eg það óheppilegt, að ráðast á tilgang laganna, sem var sá, að koma sem fyrst skipulagi á fræðslumálin, með stöðugri frestun. Ef framkvæmd er dregin ár frá ári, án þess að koma á fræðslusamþyktum, þá er tilgangi laganna kollvarpað. Og það er eg hræddur um, að sé meining háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.). Þegar lögin voru til umræðu fyrst, var eg sömu skoðunar og hann er nú, en nú, þegar búið er að samþykkja þau, og langt á leið komið að fullnægja þeim, álít eg óheppilegt að fresta framkvæmd þeirra enn. Eg hefi heldur ekki orðið var við svo mikla örðugleika á því, að koma þeim á. Eg get upplýst háttv. þm. um það, að að eins 30 —40 hreppar eiga eftir að búa til fræðslusamþyktir, í flestum þeirra munu þær í smíðum, og frá mörgum eru þær komnar í hendur stjórnarinnar. Það er líka búið að gefa mönnum svo langan umhugsunar- og undirbúningstíma, að eg álít óþarfa vegna þessara fáu hreppa, að gefa lengri frest. Fræðslumálastjóri hefir líka ferðast um landið og hvatt menn til framkvæmda í stað þess að reka áfram með harðri hendi. Eg vil því leggja til, að þetta frv. verði felt.