13.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

134. mál, barnafræðsla

Jón Magnússon:

Eg er samdóma háttv. flutnm. (J. J. N.-M.), að óþarft sé að skipa nefnd í þetta mál. En það er af nokkuð öðrum ástæðum. Eg lít svo á, að hvaða skoðun sem menn hafa á fræðslulögunum, þá eigi að fella þetta frumv. Eg skil ekki þau rök háttv. flutnm., að sjálfsagt sé að fresta framkvæmd laganna nú, þótt nefnd á seinasta þingi hafi álitið sjálfsagt að fresta því þá um tvö ár. Það er líka hið stakasta ranglæti við þá hreppa, sem þegar hafa komið þessu fyrirkomulagi á hjá sér, vegna þess að þeir hafa haldið, að þingið mundi ekki altaf vera að hringla með þau lög, sem það hefir einu sinni samþykt. Nú sem stendur, eru það að eins 34 hreppar, sem ekki hafa tekið upp ákvæði laganna enn, og það er búist við, ef alþingi leggur ekki hindranir í veginn, með stöðugum frestunum, að lögin komist í framkvæmd í öllum hreppum á þessu ári. Jafnvel þótt menn líti að eins á lögin sem bráðabirgðarlög, þá er samt ástæða til að taka strax upp ákvæði þeirra og lofa þeim að sýna sig. Það er ósanngjarnt að láta 20 hreppa vera undanþegna, þegar allir aðrir hreppar hafa hlýtt lögunum.

Hvað mótspyrnuna og óánægjuna með lögin snertir, þá hygg eg, að hún sé meira í orði en reynd, og það sýnir sig einmitt í því, hve fáir hreppar hafa notað þann frest, sem alþingi hefir gefið. Ef óánægja hefði verið, mundi framkvæmd lagaákvæðanna hafa verið dregin meir. Eg sé því alveg ástæðulaust, vegna einna 20 hreppa, að vera að grauta í því, sem alþingi hefir einu sinni samþykt og vona að háttv. deild felli þetta frumvarp, hvernig sem hún annars lítur á fræðslulögin sjálf.