11.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1867 í B-deild Alþingistíðinda. (2250)

134. mál, barnafræðsla

Flutningsmaður (Jón Jónsson N.-Múl.):

Eg get ekki orðið við óskum háttv. samþingismanns míns, um að taka frumv. aftur. Eg ber það fram samkvæmt óskum manna úr kjördæmi mínu og jafn vel þótt svo hafi verið gengið frá fjárlögunum nú, að erfitt verði að fá farkenslustyrk, þá er samt ekki útilokað, að ákvæði verði sett inn í fjárlögin aftur. Mér finst í raun og veru sjálfsagt, að það standi á fjárlögunum, þangað til allir hreppar hafa haft not af því.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) sagði, að eg hefði verið að ráðast á tilgang fræðslulaganna, en það er ofmælt hjá háttv. þm., eins og liggur í augum uppi af því, að eg fer ekki fram á neina breytingu á lögunum, heldur er að eins um frest á framkvæmd eins ákvæðis þeirra að ræða.

Það er hægur hjá að klemma á þjóðina nýjum lögum og segja svo, þegar farið er fram á að breyta þeim, að bezt sé að bíða og vita, hvort ekki lagist. Almannarómur hefir ætíð eitthvað við að styðjast. Þótt lögin séu að ýmsu leyti góð, þá er þetta ákvæði þó á móti anda manna víðsvegar um land.

Háttv. samþm. minn (Jóh. Jóh.) sagði, að rétt væri að taka frumv. aftur vegna fjárveitingar þeirrar á fjárlögunum, sem ætluð er farskólum. En eg sé enga þörf á því, að taka frumvarpið aftur. Eftir fræðslulögunum er skylt að styrkja farskóla, hvar sem þeir eru. Þetta frumv. getur því alls ekki hindrað það, að slíkir skólar komist á fót.

Það er einkum þetta, sem eg legg áherzluna á, að þetta er mikill kostnaður fyrir sveitarsjóðina og í strjálbygðum héruðum getur það verið mjög tilfinnanlegt og erfitt að koma barnaskólum á laggir. Það er satt, að í lögunum er heimiluð heimafræðsla, ef hún er jafn góð hinni lögboðnu. Eg vil sem minst eiga undir fræðslunefnd; eg vil að vér ráðum sjálfir, hvað vér álítum börnum vorum fyrir beztu. Þannig eru margir skapi farnir og vilja heldur kosta kennslu á börnum sínum heima hjá sér, heldur en að hlíta ákvæði einstakra manna, sem máske ekkert vit hafa á fræðslu og beita harðneskju þar ofan á. Sjá því allir, hve fráleitt þetta ákvæði er.