19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (2257)

134. mál, barnafræðsla

Stefán Stefánsson:

Eg veit ekki, hvort háttv. flutnm. hefir gert sér ljóst, hvað hann er að vinna með því, að koma fram með þetta frv. Eg held hann hefði ekki komið fram með það, ef hann hefði gert sér ljósa grein fyrir, hversu mikla óánægju hann vekur með þessum fræðslusamþyktarfresti. Eg lít nefnilega svo á, að þessum tveggja ára fresti, sem enn á að veita með frv., verði afarilla tekið, sérstaklega af þeim, sem þegar hafa komið á hjá sér fræðslusamþyktum og öðrum þeim mönnum, sem mestan hafa áhugann á fræðslumálum. En hitt efast eg ekki um, að þeir sem minst um þau mál hugsa og þeir sem ekkert hafa enn gert í þá átt, að koma lögunum í framkvæmd, muni taka frv. fegins hendi, en þingið ætti sannarlega ekki að ala upp þann hugsunarhátt, að einu gildi fyrir þjóðfélagið, hvernig um þessi mál fari og að ákveðið skipulag á fræðslumálum sé með öllu óþarft. Það er líka að mér virðist ástæðulítið fyrir löggjafarvaldið að vera að fresta lögunum, þegar að eins eru eftir 20—30 hreppar á öllu landinu, sem ekki hafa komið lögunum í framkvæmd. Þetta eru nú þessir mörgu, sem háttv. flutnm. talaði um, að einkum væru óánægðir með lögin. En þessi frestur mundi verða til þess, að í þeim sveitum, sem lögin eru komin í framkvæmd og hafa komist það, þótt töluverð mótspyrna hafi verið gegn þeim af einstökum mönnum, þá mundu þessir sömu menn nú verða allháværir yfir því að fræðslusamþyktum hafi verið óþarflega snemma og fyr en löggjafarvaldið hafi ætlast til, komið í framkvæmd hjá þeim, og sveitarfélögunum með því bakaður óþarfur kostnaður um fleiri ár. Þetta finst mér sú eðlilega afleiðing, því ef fræðslusamþyktirnar eru ekki nauðsynlegar, þar sem alt hið nánara fyrirkomulag er ákveðið, þá eru lögin ekki verulega nauðsynleg, því þá væri réttara að tiltaka að eins, hvaða fræðslumarki hver einstaklingur yrði að ná, en láta það algerlega laust og án alls skipulags, á hvern hátt. En fræðslulögin gera nú ráð fyrir samþyktunum, og það álít eg líka sjálfsagt, enda er það álit þess manns, sem stjórnin hefir sér til aðstoðar í þessum málum. Það er annars einkennilegt, hvað sú fráfarandi stjórn hefir gersamlega gengið fram hjá tillögum þeirra manna, sem skipaðir eru henni til aðstoðar bæði í fræðslumálum og öðrum málum.

Þessa stefnu tel eg mjög óheppilega af stjórninni, og sama er að segja um það, fari þingið nú að fyrirskipa það, sem fræðslumálastjórinn álítur öldungis óráðlegt, eins og hér á sér stað um frestun samþyktanna. Enda lít eg svo á, að sé það rétt, sem háttv. flutningsm. heldur fram, að menn óski enn frestunar á framkvæmd laganna, þá lægi beinna við, og væri eðlilegra, að flytja frv. um að nema lögin úr gildi. Eg skil ekki að þingið vilji enn fresta þessu ákvæði í lögunum um 2 ár, því með því gefur það í skyn, að það hafi ekki meint annað með þeim, en að sveitafélögin gætu hagað fræðslunni, eins og þeim sjálfum sýndist bezt henta, án þess það væri nokkru föstu skipulagi bundið.