19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

134. mál, barnafræðsla

Hannes Hafstein:

Eg get ekki kannast við, að í þessari frestun felist neitt annað en eftirlátssemi við nokkra menn. Væri að ræða um óánægju yfir óheppilegum ákvæðum, sem þingið kannaðist við að væri á rökum bygð, þá ætti að breyta því sem óheppilegt þykir eða fella lögin að öllu úr gildi. En hér er einungis farið fram á, að einstakir hreppar fái að trássast enn þá um nokkurn tíma við að hlýða lagaákvæðinu, sem að öðru leyti er látið standa óhaggað í lögunum. Mér finst, að það gæti ekki bætt úr óánægjunni, ef einhver er hjá þeim, sem þegar eru búnir að framkvæma það, sem lögin skipa fyrir um, heldur þvert á móti, og álít því mjög misráðið að samþykkja frestunina.