06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

38. mál, byggingarsjóður

Hannes Hafstein:

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) færði það sem aðalástæðu fyrir frv. sínu, að með því fengist jafnrétti milli bankanna beggja. Þetta ætla eg, að sé ekki rétt. Það gjald, sem landsbankinn greiðir, er renta af fé, sem bankinn hefir fengið hjá landssjóði. Gjald það til byggingarsjóðsins, sem lagt var á bankann 1905, var ekki sett hærra en svo, að bankinn þótti sleppa vel, jafnvel þótt gjaldið væri skoðað sem viðbót við vextina af seðlaláni landssjóðs til bankans og vel gat þetta blessast undir gömlu bankastjórninni. Íslandsbanki hefir ekkert slíkt seðlalán af landssjóði, en fyrir seðlaútgáfuréttinn greiðir hann hundraðsgjald af ágóða sínum, sem þegar er orðið allhátt. Það var að meðaltali fjögur árin 1908—1909 13386 kr. á ári og fer vaxandi. Þar að auki fylgir þar sú kvöð, sem landsbankinn er laus við, að liggja með arðlansan gullforða, til tryggingar seðlum bankans.

Sé þessi »jafnréttis« hugmynd aðalástæðan, þá er hún svo léleg, að eg býst við, að eg geti ekki fallist á frv. Réttast væri þó að setja nefnd í málið, sem athugaði öll þau atriði, sem til greina gætu komið.