06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

38. mál, byggingarsjóður

Hannes Hafstein:

Flutningsm. (B. Kr.) gat þess, að það væri fyrirsjáanlegt, að landsbankinn biði tap. En eg hygg, að það sé réttast að láta það atriði liggja milli hluta að svo stöddu. Hins vegar vita menn, að bankinn hefir haft mikil útgjöld og kostnað nú seinasta ár, síðan »system« skiftin urðu, útgjöld, sem ekki er víst að ástæða sé til að »múlktera« landssjóðinn fyrir frekara en gert hefir verið. »Rannsóknarnefndin« svonefnda, kostaði 9000 kr. út af fyrir sig, að því er sagt er. Fjöldi nýrra og hálaunaðra starfsmanna kostar líka nokkuð. Þetta getur valdið því, að bankinn í svipinn hafi allmiklu minna að leggja við varasjóð sinn, heldur en tíðkast hefir að undanförnu. Slíkt þarf að athugast nákvæmlega. En um hitt, hversu mikið tjón bankinn bíði í framtíðinni getur enginn sagt nú, og er nær að reyna að fyrirbyggja það, að bankinn bíði tjón, heldur en að spenna upp einhverjar tapáætlanir, sem auðvitað ef til vill væri hægt að framfylgja, en sem engin ástæða er til að byggja á fyrirfram. Það verður að gera ráð fyrir, að allir geri sitt bezta.