06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

38. mál, byggingarsjóður

Flutningsm. (Björn Kristjánsson):

Eg skal svara fyrirspurninni þannig, að eg veit ekki til að bankinu hafi beðið neitt tap. Við höfum afhent bréfin með sama verði og við gáfum fyrir þau.

Hv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að tapið ætti að liggja milli hluta. 9000 kr., sem bankarannsóknin hefir kostað, hefir bankinn borgað hér um bil að hálfu, með þeim fyrirvara, að þingið skæri úr, hvort landssjóður ætti að borga það eða bankinn. Það er nógur tími að tala um aukagepla-gæzlustjóra, þegar úrskurður hæstaréttar er kominn. Hingað til hefir bankinn ekki borgað nema einum gæzlustjórum. Hvað þingið kann að gera, veit eg ekki; hvort það lætur bankann borga tvennum gæzlustjórum eða einum, en það væri óréttlátt að láta hann borga tvennum.

Háttv. þm. Mýr. (J. S.) talaði mikið um það, að landssjóður hefði mikil gjöld en litlar tekjur. Eg verð að segja það, að ef allir hefðu jafnan aðgang að því að útvega sér tekjur, eins og landssjóður hefir, þá væru ekki eins mikil vandræði og nú eru. Hann talaði um, að maður þyrfti að þekkja bankann og kynna sér bankasöguna. Það var auðheyrt á því sem hann sagði, að hann þarf að kynna sér hana; og ef hann hefði ómakað sig ofan í bankann, þá hefði hann getað fengið þær upplýsingar, sem hann auðsjáanlega vantar nú.

En þeir þingmenn, sem eru andvígir því, að bankarannsóknin fór fram, loka nú augunum. Fyrst er þó að hafa einhverja vissu, svo er að dæma.

Þetta mál er rannsókninni alveg óviðkomandi, og harla einkennilegt, að bankafarganinu skuli vera fléttað inn í þetta mál. Og þeir menn, sem bera hag bankans fyrir brjósti, — og það vona eg að allir geri, — munu eflaust samþykkja frumv.