21.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (2281)

8. mál, lögheiti á stofnunum

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg skal ekki fara langt út í efni þessa frv. Mér finst það vera að leika sér með tíma þingsins að bera upp slíkt frumv. sem þetta, og skipa sérstaka nefnd til að íhuga það. Alþingi getur breytt heiti þeirra landsstofnana, sem á fjárlögum eru, á annan hátt en með sérstökum lagaboðum, enda hefir alþingi gert það. Landsbókasafnið hét í öndverðu »stiftsbókasafn« alt til 1881; þá breytti alþingi nafninu á fjárlögunum, Og þannig mætti fara að með fleiri stofnanaheiti, blátt áfram breyta nöfnunum á fjárlögunum.

Um landsbankann er það að segja, að mér er illa við að breyta nafninu. Bankinn er orðinn þektur með því nafni, sem hann hefir, og honum mætti vel verða bagi að nafnbreytingu, einkum að því er kemur til viðskifta bankans við útlönd.

Aftur er öðru máli að gegna um forngripasafnið; það er miklu fremur þjóðmenjasafn en forngripasafn, því að þar varðveitast þjóðmenjar frá öllum tímum, enda minnir mig, að þess fulla heiti sé »Forngripa- og þjóðmenja safn«.

Nafninu á bókasöfnum fjórðunganna má vel breyta á fjárlögunum.

Mér hugnar ekki að kalla landssjóð »allsherjar féhirzlu Íslands«, þykir það of langt nafn.

Ástæða virðul. flutningsmanna fyrir frumv. þessu, að minni háttar stofnanir séu víða á Norðurlöndum, einkum í Svíþjóð og í Danmörku, kendar við »land« þ. e. sveit eða hérað, og því sé réttara að taka upp heitið »þjóð«, hefir ekki stoð í íslenzku máli, því að ríki eða þjóð hefir ekki víðari merkingu í íslenzku en land. Með Norðmönnum hefir einnig haldist sama merking í orðinu land sem með oss. Það er fornt og ramíslenzkt, að hafa »land« í merkingunni »ríki«.

Eg vil leyfa mér að skjóta því til virðul. flutningsm. hvort þeir mundu ekki vilja taka frv. aftur; það er of mikill »apparatus« um svo lítilfjörlegt mál, að gefa út um það sérstök lög og eyða tíma þingsins í nefnd og umræður um málið, þar sem einfaldast er að breyta heitunum á fjárlögunum.