06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (2284)

34. mál, lögskráning mannanafna

Flutnm. (Bjarni Jónsson):

Eg skal ekki halda langa ræðu. En byrja skal eg á því, að eg álít það bæði leiðinlegt og sorglegt, ef þessi þjóð þarf að gæta þjóðernis síns með löggjöf. Íslendinga mætti þó reka minni til þess, að það er tunga þeirra, sem þeir eiga alt að þakka, bæði að varðveitst hefir þjóðernið sjálft, og eins frægð sína meðal annara þjóða. Þeir ættu því sízt að láta skemmast þann dýrgripinn, sem þeir eiga beztan. En eg hygg, að enginn geti neitað því, að það sé skemd að breyta mannanöfnum, sem hafa haldið sér óbreytt alla tíð hingað til. Og þessi ósiður að kenna sig við afa sína og langafa, og kalla kvenfólkið syni feðra sinna eða manna sinna, en ekki dætur o. s. frv., alt er þetta ekkert annað en apakattarháttur, sem óþjóðræknir Íslendingar hafa tekið upp eftir útlendingum nú á síðari tímum, eins og mönnum hættir við að gera, þegar þeir eru að missa virðinguna fyrir sjálfum sér. Öll ónöfn bera vott um vanrækt við þjóðernið. Ekki er svo að skilja, að eg telji bót að neinum þjóðernishroka, en svo mikið á hver að virða sjálfan sig, að hann taki það góða, sem hann hefir fram yfir það illa, sem aðrir hafa. Eða hugsum oss að á kjörskrám þessa bæjar standi: »Vogi frá Jónsson Bjarni«. Hér var boðað til þingmálafundar í vetur, og á þeim skrám var t. d. Bjarnason Lárus talinn með »B«-um, og Björn Ólsen, er líka hefir ættarnafn, sömuleiðis talinn með »B«. Þetta er engin samkvæmni. Það ætti að vera nokkurn veginn sjálfsagt, enda auðveldast, að hafa skírnarnafnið fyrst. Þetta hefir leitt til þessa frumvarps, sem fer fram á það, að íslenzk mannanöfn skuli framvegis verða rituð á skrám og skýrslum samkvæmt tungu og þjóðsiðum, eins og áður var.

Menn munu nú segja, að þetta sé smátt. En ef þjóðin lærir að óvirða sig í mörgu smáu, þá kemur hitt á eftir, sem stærra er. Sumir segja, að ættarnöfnin séu svo glögg og góð fyrir ættfræðingana. En nú vita það allir menn, að hvergi hefir ættfræðin blómgast eins vel og hér, og einmitt í öðrum löndum eru menn í vandræðum með ættarnöfnin, t. d. í Danmörku. Það er ekki stórt betra að heita Jensen eða Sörensen þar heldur en Jón Jónsson hér.

Það má líka bæta úr samnöfnunum með kenningarnöfnum, líkt og áður var títt, en aldrei myndi Snorri goði hafa verið kallaður goði Snorri, og því síður myndi Þorgerður Egilsdóttir nokkuru sinni hafa verið kölluð fröken Skallagrímsen, eins og »Þorgils gjallandi« komst svo heppilega að orði.

Eg vil nú ekki orðlengja frekar, heldur einungis segja það, að eg álít fulla ástæðu til að samþykkja frumv. þetta, með þeim breytingum, er háttv. deild kynni að þykja nauðsynlegar.