06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (2291)

34. mál, lögskráning mannanafna

Flutningsmaður (Bjarni Jónsson):

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J.Ól.) vill ekki batna. Hann heldur því enn þá fram, að við flutningsm. séum aldrei við efnið, en tölum um alt annað. Þar á hann víst við, að okkur hefir verið fjölrætt um frumvarp hans frá 1881. Nú hefir hann sjálfur sagt, að það hafi verið framflutt til þess, að menn gætu ekki vilt heimildir á sér, og sýnir þar með, að frumv. fer í sömu átt og okkar frv. Við viljum ekki láta villa heimildir á okkur né öðrum manni og því er það rangt, að eg sé á kjörskrá nefndur Jónsson Bjarni. Eg heiti það alls ekki. Eg er skírður Bjarni og faðir minn hét Jón. Það er því að villa heimild á mér, ef eg er kallaður annað en Bjarni Jónsson. Það er alveg rétt hjá háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) að mörg dæmi eru til þess, að menn yfirleitt þekkja ekki nema skírnarnöfn margra manna. T. d. er Torfi í Ólafsdal alþektur maður, en fæstir munu vita, hvers son hann er. Eg gæti nefnt fleiri. Jón Ólafsson þekkja flestir, en hvað margir ætli kannist við Ólafsson Jón? Allir mundu leita að honum undir Jón — hann er og verður meðal Jónanna í hvaða Jónasambandi svo sem hann er.

Undarleg mótbára er það gagnvart frumvarpi okkar, að það á að gera mönnum erfiðara að semja skrá í stafrófsröð. Eg hélt þó satt að segja, að háttv., 2. þm. S.-Múl.

(J. Ól.), sem er orðabókahöfundur, væri kunnugt um það, að það er jafn erfitt, eða jafn létt, að raða öllum orðum eftir bókstöfum. Því skyldi þá vera erfiðara að raða sonarnöfnum en föðurnöfnum? Það er mér óskiljanlegt.

Ein ástæðan móti frumvarpi okkar á að vera sú, að nái það fram að ganga, fari 8000 kr., sem landsbókasafnið hefir varið til bókaskrársetningar, til ónýtis. En má eg spyrja? Hvenær hefir alþingi veitt fé til þess að semja skrá yfir öfug mannanöfn. Mér er ekki kunnugt um það. En hafi hér verið farið að eins og ónefndur maður gerir, þegar hann les biblíuna, er víst ekki vanþörf á að endurskoða það og láta þá, sem það hafa gert, standa reikningsskap gerða sinna.

Hvað ummælum háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) um það, að eitt meiri hl. blað, hafi kallað mig Vog-Bjarna, viðvíkur, vil eg geta þess, að eg tel það mikið betra og réttara nafn en Jónsson Bjarni, því að Vog-Bjarni er þó símnefni mitt og hefi eg ekkert á móti því, þótt einhver nefni mig með því, en hitt er uppnefni, sem mörg af Heimastjórnarblöðunum hafa kallað mig, Voga-Bjarni, og hefi eg hugsað mér að stefna þeim fyrir það.

Eg hygg nú, að menn hafi heyrt nægju sína í þetta sinn. Vona að nefnd verði kosin í málið og henni gefist tóm til að lesa gömul frumvörp Jóns Ólafssonar og sjá samkvæmni hans.