06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (2292)

34. mál, lögskráning mannanafna

Jón Magnússon:

Það er hv. flutningsm. B. J.) að kenna, að umræðurnar um mál þetta eru komnar inn á nokkuð óeðlilega braut. Hér er ekki um annað að tala, en að fyrirskipa, hvernig nöfn manna á opinberum skrám verði haganlegast skráð. Háttv. flutningsm. talaði mörg óþarfa orð um þjóðerni og þjóðernistilfinningu. Þetta mál kemur þjóðernistilfinningunni ekkert við. Heldur háttv. flutningsm. (B. J.), að menn geti ekki verið eins þjóðræknir, þótt þeir hafi eða taki sér ættarnafn. Halda menn að aðrar þjóðir, t. d. Norðmenn, Danir og aðrar þjóðir, hafi mist þjóðerni sitt, er þeir tóku upp ættarnöfn alment í stað þess að kenna sig við föður sinn, eins og hér tíðkast. Slíkt er hin mesta heimska og fjarstæða. Önnur heimskan er sú, að vera að blanda hér inn í reglum um viðskifti manna í milli, eins og gert er í 2, gr. Slíkt á alls ekki hér við, auk þess sem fyrirmælin eru í sjálfu sér óheppileg. Það getur vel verið, að þurfi að gefa reglur um skrásetningu mannanafna, en alstaðar annarstaðar en hér, mundi hafa verið vísað til stjórnarinnar, að setja slíkar reglur. En hér á landi þarf alt að koma frá þingmönnum. Þeir koma hver úr sínu horni með breytingar og nýmæli um alla skapaða hluti; þess vegna verður engin eining í löggjöfinni.

Mér liggur í léttu rúmi, hvort nefnd verður skipuð í málið eða ei. Það væri að eins tímatöf. Réttast væri að fella frumvarpið þegar. Eg stóð aðallega upp til þess að mótmæla því, að þingmenn eigi rétt á að koma með slík frumvörp og þetta, og hafa svo í brigslum, að þeir, sem væru móti þessu frumv., væru óþjóðræknir ef ekki föðurlandssvikarar. Slíkt er óhæfa einber og mjög vítavert.