19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

132. mál, stofnun húsmæðraskóla

Bjarni Jónsson:

Eg hefi ekki haft tíma til að athuga þetta mál enn þá. Vinnubrögðin eru þau hér á þinginu, að 14—15 mál eru tekin fyrir daglega, og hefi eg ekki gáfur svo miklar, að eg geti sett mig inn í þau öll í einu. Eg vildi því beina þeirri fyrirspurn til háttv. framsm. (P. J.): Er það meiningin, að þetta sé húsmæðraskóli, sem sé fyrir alt landið og það eigi og styrki? Þá finst mér nokkuð öfugt, að fara að fara stofnsetja hann á Austfjörðum, þar sem engir ná til hans, nema Héraðsbúar. Væri nú ekki vinnandi vegur að hafa skólann í því formi, að hann væri samskóli, þar sem bæði væru kend kvenleg fræði og svo bændavinna. Það stæði einmitt vel á, ef slíkur skóli væri fyrir alt Austurland. Ef 30 manns gæti verið í húsinu, mundi það nokkurnveginn svara til aðsóknarinnar, 15 af hvoru kyni. Nemendur gætu notið þar góðrar tilsagnar. Á slíkri stofnun myndi margt verða kent viðvíkjandi húsforsjá, sem konum er líka nauðsynlegt að læra. Þetta var að eins fyrirspurn til nefndarinnar, hvort þetta myndi ekki heppilegasta lausn á málinu, því að vel virðist mega koma slíkum samskóla á á þessum stað. Hvort eg kem með brtill. við 3. umr., get eg ekki enn sagt um með vissu, það er alt undir því komið, hvort eg hefi nægan tíma til þess að búa það undir eða ekki.