22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (2318)

132. mál, stofnun húsmæðraskóla

Jón Jónsson N. M.:

Eg vildi að eins leyfa mér að minnast stuttlega á breytingartillöguna á þgskj. 702. Skal eg geta þess, að mér finst ekki ástæða til að útiloka að hægt sé að reka búskap á skólajörðinni á kostnað landssjóðs, ef þess gerðist þörf. Því í fyrsta lagi er ekki hætta á, að slíkt komi oft fyrir og í öðru lagi mundi búskapurinn borga sig vel, ef hann væri rekinn vel, svo að það væri alls engin áhætta, þó að svo ólíklega skyldi fara, að þörf gerðist á að reka hann á kostnað landssjóðs. Hér er um svo stóra jörð að ræða, að sjálfsagt er að hafa þar sem stærst bú. Það gæti því svo farið, að ekki væri hægt að fá mann, er gæti haft þar nægilega stórt bú. En þótt ekki fengist neinn nýtur og duglegur leiguliði og landssjóður þess vegna yrði að reka búskapinn á eiginn kostnað, væri slíkt alveg áhættulaust. Þetta er mikið nauðsynjamál og vona eg því, að það nái fram að ganga, enda þótt eg hefði heldur kosið að hafa bændaskóla á jörðinni.