22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (2319)

132. mál, stofnun húsmæðraskóla

Hálfdan Guðjónsson:

Eg vil leyfa mér að mæla með nokkrum orðum með breytingartillögunni á þgskj. 702, þar eð háttv. meðflutningsmaður minn er ekki viðstaddur nú. Hann talaði við síðustu umr. fyrir sömu stefnu og tillagan fer fram á. Og býst eg við að háttv. þm. reki minni til þess, að það, sem hann hélt fram, var, að landsjóður ætti að eiga sem minst á hættu og ætti því ekki að reka búskap á jörðinni á eigin ábyrgð og kostnað. Þetta er einnig mín skoðun. Þess ber að gæta, að ef landssjóður rekur búskap á jörðinni, verður hann, auk hennar, að leggja til alla áhöfn og áhöld. Eg hefði fyrir mitt leyti viljað, að öll áhöfnin væri seld og jörðin seld á leigu áhafnarlaus. Það getur varla hent að jörðin leigist ekki; hún væri þá illa valið skólasetur. Eg hygg að hún muni leigjast. Það er alkunnugt, hvílík rekistefna á sér oft stað og hvílíkt verðfall hefir orðið á eign landssjóðs, þá er slíkar jarðir eru teknar út og búin afhent af leiguliðum. Hygg eg ekki að hægt væri að búa svo um hnútana, að slíkt gæti ekki komið fyrir hér. Það hefir því vakað fyrir mér, eins og háttv. 2. þm. Húnv. (B. S ), að búskapurinn á jörðinni væri rekinn á kostnað leiguliða, en ekki landssjóðs.

En úr því, að eg fór að minnast á þessa skólastofnun, skal eg geta þess, að mér þykir skólasetur þetta ekki vel valið handa húsmæðrum, þar eð það liggur talsvert langt frá sjó, og þess vegna verður ferðakostnaður þeirra, er sækja þangað úr fjarlægð, talsvert mikill. Sjóleiðin, mundi notuð af öllum þeim, er koma lengra að. Þar sem skólinn stendur uppi í Héraði, langt frá sjó, mundi allmikill landferðakostnaður bætast við. Eg sætti mig þó við, að hér sé settur upp húsmæðraskóli, eftir því sem á stendur, úr því ekki var hægt að halda hér uppi bændaskóla, enda þótt skólinn verði ekki nægilegur fyrir alt landið og muni aðallega koma þeim landsfjórðungi að notum, er hann stendur í.