08.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (2325)

50. mál, landsbankalög

Hannes Hafstein:

Háttv. flutnm. (B. Kr.) þótti það óviðeigandi, að vísa þessu máli til bankarannsóknarnefndarinnar, og álítur réttara að því sé vísað til peningamálanefndarinnar. Eg skal kannast við það, að í skjótu bragði kann svo að virðast, að það liggi fult eins nærri. En þegar betur er að gætt, finst mér liggja í augum uppi, að það á miklu meira skylt við starf það, sem rannsóknarnefndin nú hefir með höndum. Aðaltilgangur frumvarpsins er sá, að breyta fyrirkomulaginu á stjórn landsbankans, þannig, að afnema með öllu gæzlustjórasýslanirnar, sem deilan nú stendur aðallega um, þegar um það stjórnarframferði er að ræða, sem bankarannsóknarnefndin á að athuga. Marga grunar, hver niðurstaða nefndarinnar muni verða, að því er snertir lögmæti afsetningar gæzlustjóranna, og þegar nú þetta frumv. kemur úr þeirri átt, sem það kemur, þá er vissulega örðugt að verjast þeirri hugsun, að frumv. standi í allbeinu sambandi við mál það, sem bankarannsóknarnefndin sérstaklega hefir með höndum, nfl. innsetning gæzlustjóranna aftur í lögleg réttindi þeirra í stjórn bankans. Meiningin með frumv. virðist blátt áfram vera sú, að grípa hér fram fyrir hendurnar á rannsóknarnefndinni, gera þinginu ómögulegt eða tilgangslaust að setja gæzlustjórana inn aftur, með því að nema stöður þeirra úr lögum, með öðrum orðum, sparka þeim út með lögum, fyrst ekki er hægt að gera það með rétti.

Það er ekki gott að sjá, hvað þessi og þvílík lagasmíð kemur við frumvarpinu um stofnun nýs veðbanka, sem peningamálanefndin hefir til meðferðar. Hér í þessu frumvarpi er alls ekki að ræða neitt um fjármál bankans, heldur hitt, að löghelga gerræðisverkið frá því í hitt eð fyrra, sem þetta þing nú á að leiðrétta, og þær lögleysur, sem framdar hafa verið, að því er gæzlustjórn bankans snertir.