08.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (2329)

50. mál, landsbankalög

Pétur Jónsson:

Eg get tekið undir það, að frumv. þetta virðist fram komið sem áframhald af atburðum þeim, er gerst hafa á seinustu missirum. Skipun rannsóknarnefndar fimta hvert ár virðist eiga að vera til staðfestingar því, að rannsóknarnefndin í hitt eð fyrra hafi verið nauðsynleg. En það er fleira einkennilegt við þessa rannsókn fimta hvert ár. Svo sem kunnugt er, þá er þingkjörtímabilið 6 ár. Ef nýr ráðherra kemst að í byrjun kjörtímabilsins, þá getur maður vænst þess, að hann sitji út kjörtímabilið og haldi fylgi sínu með ýmsu móti. Ef hann skyldi nú vera óvandur að meðölum, þá er eitt meðal til þess að hafa vald yfir æztu peningastofnun landsins. Ef það er misendismaður, sem í ráðherrastöðunni er, getur hann skift um bankastjórn strax og hann kemst til valda. Eg segi ekki, að margir ráðherrar mundu gera það, en bendi á, að slíkt getur komið fyrir. Hina nýju bankastjóra hefir hann í vasa sínum, og að fimm árum liðnum lætur hann rannsaka hag bankans af mönnum, sem hann velur sjálfur, og er þá líklegt, að ekki verði miklir misbrestir taldir á. Það er ekki víst, að rannsóknin verði þá til þess að gera grein fyrir hag bankans og starfi, heldur einungis til að blekkja þing og þjóð. Eg vil taka það fram, að ráðherra getur verið samvizkusamur maður, sem ekki misbeitir valdi sínu og velur góða menn til rannsóknarinnar, en það má líka búast við hinu, og þá þarf einmitt á óhlutdrægu eftirliti að halda. Nú aftur á móti velur þingið 2 gæzlustjóra, góða og samvizkusama menn, til þess að hafa eftirlit með öllu. Hv. flutnm. (B. Kr.) sagði raunar, að þeir væru gagnslausir, gætu ekkert eftirlit haft. Til þess þyrftu þeir að vera svo langan tíma daglega í bankanum. En mér er spurn, hvað ætti þá rannsóknarnefnd, sem að eins starfar fimta hvert ár, að geta afrekað, þar sem 2 gæzlustjórar, er starfa 1 til 2 tíma á dag, geta ekki fylgst með í neinu? Nei! Það liggur í augum uppi, hve miklu sjálfsagðara er að halda gæzlustjórunum, sem hafa daglegt eftirlit og áhrif og geta á hverju þingi vakið athygli á því, sem þeim virðist athugavert og aflaga, en að láta stjórnina setja rannsóknarnefnd 5. hvert ár, einkum nú, þegar menn hafa eins og vaknað af draumi og séð, að nauðsynlegt er að taka í taumana til þess að hindra það, að stjórnin geti misbeitt valdi sínu yfir bankanum eftir geðþótta.