08.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

50. mál, landsbankalög

Pétur Jónsson:

Út af ummælum háttv. flutningsm. (B. Kr.), vil eg geta þess, að eg meinti ekki, að hvert einasta atriði í þessu frumvarpi væri sprottið af viðburðum síðustu missira, heldur frumv. sjálft.

Háttv. flutningsm. (B. Kr.) spurði, hvort hinir fráförnu gæzlustjórar hefðu nokkurn tíma skýrt þinginu frá hag bankans, og svaraði þeirri spurningu neitandi, því að þeir hefðu engan tíma haft til þess, að setja sig inn í hag bankans. En þetta er ekki rétt. Að minsta kosti framan af, var eftirlitsstarf gæzlustjóranna létt og hingað til hafa þeir fylgst svo vel með hag bankans, að rannsóknarnefnd 5. hvert ár mundi ekki gera það eins vel. Hefðu þeir áreiðanlega skýrt þinginu frá því, ef eitthvað hefði verið við hann að athuga, sem þeir fengu eigi lagfært án afskifta þingsins. Auk þess voru gæzlustjórarnir áður ekki eingöngu eftirlitsmenn, heldur einnig bankastjórar og gátu því sjálfir lagfært það, sem ábótavant var og þurftu ekki að snúa sér með það til þingsins. En eftir nýju lögunum eru þeir því nær eingöngu eftirlitsmenn.