11.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1949 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

68. mál, gerðardómur í brunabótamálum

Flutnm. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! — Við flutnm. höfum komið fram með þetta frv. af því, að við lítum svo á, að hér sé um nauðsynjamál að ræða. Það er orðin föst reynsla hér á landi, að vátryggingarfélögin leyfa sér að beita þeirri aðferð, einkum við þá, sem lítils mega sín, að neita að greiða nema nokkurn hluta vátryggingarupphæðarinnar, jafnvel ekki nema ¼ eða þaðan af minna, þótt bersýnilegt sé, að bruninn hafi ekki hlotist af mannavöldum. Fátækir menn hafa neyðst til að taka þessum boðum, sökum þess, að þeir hafa ekki haft bolmagn til að bíða mörg ár borgunar og kosta fé til að sækja mál sitt til hæstaréttar. Eg get nefnt til dæmis, að fyrir 5 árum var fátækum manni einum boðnar 250 kr. upp í vátryggingarupphæðina, en hann vildi ekki þiggja það. Gekk svo í stappi um þetta, þar er til aðilar urðu ásáttir um, eftir meir en 4 ára þref, að leggja málið undir gerðardóm í Kaupmannahöfn. Og hvernig fór? Í stað 250 kr. gerði gerðardómurinn félaginu að greiða 4500 kr. Þetta er til marks um það, hvað óprúttin félög leyfa sér. Þótt félögin beri það fyrir, að brunar séu hér tíðir, þá hafa þau sett undir þann leka með því að hafa iðgjöldin svo há, að eindæmi er. Þótt þessi félög drægju sig burt héðan sakir þessa skilyrðis, sem varla er hætt við, þá mundu önnur félög, og það öll vönduðustu og áreiðanlegustu félögin, gangast undir það. Vátryggingarfélögum má ekki líðast, að misbjóða almenningi og fyrir það er girt með þessu ákvæði. Ef ágreiningur rís upp, þá skulu málin lögð í gerðardóm; nefnir hvor aðila einn mann, en landsyfirdómur þrjá, og sé einn þeirra, er landsyfirdómurinn tilnefnir, oddviti og löglærður maður. Með þessu er trygging fengin til handa báðum aðilum og lítill vafi á, að félögin vilji hlíta ákvæðinu. Góð félög hafa oftast ákvæði um gerðardóm í lögum sínum og mundu lúta þessu ákvæði Það mundu að eins vera refjafélög, sem ekki vildu beygja sig undir það, og væri þá bættur skaðinn, þótt þau drægju að sér klærnar.

Eg vona, að frv. fái framgang, en með því að hér er um mikilsvert mál að ræða, býst eg við, að hlýða þyki að skipa nefnd í það, og leyfi mér að stinga upp á 5 manna nefnd.