22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (2365)

68. mál, gerðardómur í brunabótamálum

Hannes Hafstein:

Þetta frumv. er mjög varhugavert, og mjög óvíst, að það nái tilgangi sínum. Eg er hræddur um, að það gæti haft þær afleiðingar, að útlend félög mundu ekki vilja takast á hendur ábyrgðir á sumum stöðum hér á landi, og hverjar afleiðingar það mundi hafa og hvílíkur lánstraustsspillir það yrði fyrir þá, er hlut eiga að máli, liggur í augum uppi.

Sömuleiðis mundi það oft hafa mjög lítið að segja, þótt gerðardómar fengjust hér gegn útlendum félögum, því félögin gætu látið vera að beygja sig undir þá, og yrði þá, þrátt fyrir gerðardóminn, að höfða mál í útlöndum. Mér finst og varhugavert að útiloka menn frá að nota dómstólana, ef menn óska þess. Sömuleiðis hygg eg, að kostnaður yrði að meiri með þessu móti.

Við frv. er ýmislegt fleira að athuga, en eg ætla ekki að tala fleira um það að sinni, fyr en eg sé, hvort það verður látið fara lengra eða sérstakt tilefni gefst.