12.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (2371)

89. mál, bygging jarða og ábúð

Framsögumaður (Stefán Stefánsson):

Háttv. deildarmenn munu minnast þess, að þetta frumvarp var til umræðu hér í deildinni á seinasta þingi, og var því þá vel tekið og afgreitt til Ed., en þar varð það ekki útrætt, enda var það og tilætlun landbúnaðarnefndarinnar, að svo yrði ekki, því að hér var um svo gagngerðar breytingar að ræða á ábúðarlöggjöfinni, að ekki virtist heppilegt, að málið yrði afgreitt sem lög frá þinginu fyr en landsmönnum hefði gefist kostur á að íhuga það, sem rækilegast.

Að hve miklu leyti þetta frumvarp hefir verið rætt út um land, er mér ókunnugt, en í Eyjafjarðarsýslu var það bæði rætt á leiðarþingum að loknu síðasta þingi og á þingmálafundum og var því alstaðar vel tekið. Eg get ekki talið, að nokkur rödd heyrðist á móti því, miklu fremur virtust menn sammála um, að breytingar þær, sem frv. fer fram á, væru bráðnauðsynlegar til þess að veita leiguliðaábúðinni eðlilegar réttarkröfur. Aðalbreytingin er sú, að leiguliðum er gefinn meiri endurgjaldsréttur á jarða- og húsabótum en nú er, enda hafa umkvartanir eða óánægja manna með ábúðarlöggjöfina einkum hneigst að því er þetta snertir. Búnaðarmálanefndin hefir litið svo á, að endurgjaldsskylda landsdrottins yrði að vera í samræmi við sennilegan framtíðartekjuauka, er hann nyti af endurbótum leiguliða, því auðvitað er engin sanngirni, að auka svo rétt einstakra manna, að með því sé gengið á rétt annara.

Önnur breytingin er sú, að leiguliðum skuli heimilt að leysa til sín kúgildi þau, sem á jörðinni hvíla, með því móti, að þeir láti jafn góða eign í staðinn.

Þessa heimild hefir nefndinni þótt sjálfsagt að veita, til þess að koma í veg fyrir svo óeðlilega og þunga kvöð, sem kúgildin eru nú á ýmsum jörðum víðsvegar um land.

Þá eru loks ákvæði um skifting á landi, bæði á milli einstakra ábúenda, og einstakra jarða, þannig, að hver einstakur ábúandi geti krafist skifta á öllu því landi, er hann á kröfu til og ætlar að nota til slægna eða ræktunar á annan hátt, en þetta sama ákvæði kemur

fram í öðru frumvarpi, sem liggur hér fyrir deildinni og verður það því nánara rætt síðar.

Þetta eru þá aðalatriðin í frumvarpinu, sem eg nú hefi tekið fram, og vænti eg þess, að háttv. deild taki málinu vel og lofi því að ganga til 2. umr.