20.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (2376)

89. mál, bygging jarða og ábúð

Ólafur Briem:

Þetta mál er mikils varðandi og þess vert, að það sé vel athugað. í 2. og 3. gr. frumvarpsins eru settar reglur um það, að ef leiguliði vill breyta bæjarhúsum þeim, er fylgja ábýlisjörðu hans, eða umbæta þau að miklum mun, eða byggja ný jarðarhús, þá sé landsdrottinn skyldur að greiða þrjá fjórðu hluta byggingarkostnaðarins, þó að því áskildu, að húsin eða umbót þeirra sé nauðsynleg vegna ábúðar á jörðinni. Við þetta er margt að athuga. Um það geta verið skiftar skoðanir, hver hús séu nauðsynleg. Húsakostnaður getur orðið allmikill. Á smájörðum getur hann orðið eins mikill og jarðarverðið, og sé um steinbyggingar að ræða jafnvel tvöfalt svo mikill. Landsdrottinn á svo að eiga heimtingu á 4% af því, sem hann hefir lagt fram. Í mörgum tilfellum mundi því landsskuld hækka um helming, yrði því í mörgum tilfellum erfitt að byggja jörðina. Húsin gefa ekki beinan arð. Eg er hræddur um, að ef þessi regla yrði sett, þá mundu jarðir lækka í verði, því þá getur enginn keypt jörð, sem hann tekur ekki þá strax til ábúðar sjálfur, án þess að eiga það á hættu, að þurfa að leggja mikið fé fram til húsabóta, sem hann ef til vill hefir ekki efni á. En þá er spurningin, hvort ekki sé hægt að gera neitt fyrir þetta þarflega og mikilsverða mál. Eg fyrir mitt leyti verð að álíta, að margt mæli með þeirri tillögu, sem kom frá meiri hluta landbúnaðarnefndarinnar (Jóni Sigurðssyni á Gautlöndum og Bergi Thorberg). Til þess að koma betri skipun á húsabyggingar í sveitum, lögðu þeir til, að kosin væri bygginganefnd og stofnaður byggingarsjóður í hverjum hreppi. Væri slíkur sjóður stofnaður og í hann rynni fyrningargjald fyrir bæjarhús allra jarða í hreppnum og hver þeirra hefði sinn eiginn reikning, en sjóðurinn að nokkru leyti sameiginlegur fyrir allar jarðirnar þyrfti að líkindum ekki að hafa mjög hátt árgjald. Með góðri stjórn og haganlegu fyrirkomulagi, ætti sjóðurinn að geta smámsaman aukist svo, að hann þegar stundir liðu fram gæti staðist allan kostnað af húsabyggingum. Jafnframt þyrfti að hafa tryggingu fyrir því, að húsin yrðu bygð eftir ákveðnu »plani« og við hæfi jarðanna bæði að stærð og allri tilhögun. Þetta þyrfti að vera í samráði við byggingarfróðan mann, sem sérstaklega væri til þess kjörinn að leiðbeina mönnum við húsabyggingar.

Viðvíkjandi 6. gr, er eg því samþykkur, að það gæti oft og tíðum komið í veg fyrir nábúakrit, að hver og einn gæti krafist að sameiginlegu landi væri skift. Einkum er það þó mikilsvert, að hver einstakur geti fengið útskift land til ræktunar. En þegar um beitiland er að ræða, mun sundurskiftingin í mörgum tilfellum koma að litlu haldi, nema að landið sé jafnframt girt, og væri rétt að taka þar að lútandi ákvæði upp í frumvarpið.