20.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (2377)

89. mál, bygging jarða og ábúð

Sigurður Sigurðsson:

Það voru fáeinar athugasemdir, sem eg vildi leyfa mér að gera út af andmælum hv. þm. S. Þing. (P. J.) og hv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) gegn 6. gr. frumvarpsins. Eg skal leyfa mér að skýra frá því, hvað fyrir nefndinni vakti. Tilætlunin er, að hver einstakur maður geti krafist skifta á landi til slægna og ræktunar. Í núgildandi lögum um bygging, ábúð og úttekt jarða, er svo ákveðið, að þegar margir eiga land saman óskift, þá þurfa þeir allir að koma sér saman um að óska skifta, til þess því geti orðið framgengt. Er því nauðsynlegt og sjálfsagt að bæta úr þessu með því að ákveða, að hver einstakur geti krafist þess, að landinu sé skift. Þessi 6. gr. frumv. miðar því til bóta og mér er sárt um hana. Ákvæði hennar eru að vísu sérstaklega miðuð við sýslurnar austanfjalls, en þau geta átt við hvar sem er á landinu.

Hvað húsabæturnar snertir, eða skyldu landsdrotna að leggja til þeirra ákveðinn hluta kostnaðarins, gegn 4% í vöxtu, þá skal eg kannast við, að af því geti hlotist óþægindi og erfiðleikar að fá jörðina bygða, ef ábúandaskifti verða á henni.

Hins vegar er það kunnugi, að það er oft erfitt að fá ábúendur á þær jarðir, sem illa eru hýstar. Annars verð eg að telja ákvæði 2. og 3. gr. frumv. til bóta, og geri ekki ráð fyrir, að af þeim geti leitt nein vandræði.

Þetta, sem háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) nefndi, um stofnun byggingarsjóðs og bygginganefnda í sveitunum, þá kom það til tals í nefndinni, En hún sá sér ekki fært að taka upp í frumvarpið ákvæði þar að lútandi.