20.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (2378)

89. mál, bygging jarða og ábúð

Framsögum. (Stefán Stefánsson):

Viðvíkjandi fyrirspurn frá hv. 1. þm. Rang.

(E. P.) skal eg taka það fram, að viðvíkjandi allri greiðslu til jarða og húsabóta af hendi landsdrottins, þá er það að sjálfsögðu kirkjujarða- eða prestlaunasjóður, sem svarar því fé, að svo miklu leyti sem frumv. mælir fyrir um. Þetta áleit nefndin, að ekki gæti komið til að valda misskilningi, enda ætti hverjum meðal skynsömum manni að vera það ljóst, að ekki kemur til mála, að viðkomandi prestur svari þessu fé úr sínum vasa, sem að eins ber að skoða sem umboðsmann fyrir þessa sérstöku eign prestlaunasjóðs.

Annars er það undarlegt, að þeir menn, sem hafa ýmislegt við frumv. að athuga, skuli ekki hafa komið með breytingartillögur, áður en þessi umræða fór fram og mun nefndin því athuga frv. enn nánar til 3. umr.

Þá var það þyrnir í augum 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) að landsdrotni er gefin heimild til þess að hækka ársleiguna um 4% af því fé, sem hann hefir lagt fram, en menn verða að gá að því, að þetta er að eins heimild en engin skylda. Og byggist jörðin ekki með þeim hækkandi leigumála, þá er það annað tveggja sönnun fyrir því, að hún hefir áður verið óhæfilega hátt leigð, eftir verðmæti húsanna, eða þá að öðrum kosti, að menn hafa ekki alment efni á því, að búa í góðum húsakynnum. Þær kröfur, sem menn gera til þeirra, samsvara þá ekki framleiðslunni, eða efnalegum ástæðum manna og er þá í algert óefni komið. Því þó það sé fyrsta skilyrðið, að hafa ofan í sig og á, þá er það litlu ónauðsynlegra, að búa í sæmilegum húsum. Þessi fyrirmæli frumv. álít eg að mundu verða fult eins vinsæl og einn sameiginlegur byggingarsjóður. Það kom ekki skýrt fram hjá sama hv. þm., hver átti að leggja í þennan byggingarsjóð, hvort það er leiguliði eða landsdrottinn. Sé það leiguliði, sem á að leggja í sjóðinn árlegt gjald, er mjög vafasamt, hvort hann kysi það fremur, en sé það landsdrottinn, þá er það líka víst, að hann verður að hækka sem því nemur jarðarafgjaldið, og ber þá að sama brunni. Það hefir verið tekið fram, að ef leiguliði og landsdrottinn geta ekki komið sér saman um tilkostnað til húsagerðar, þá skuli úttektarmenn tilkvaddir að skera úr þeirra á milli. Með því móti getur leiguliði ekki gert ótakmarkaðar kröfur, eða jarðeigandi komið fram of miklum sparnaði, því þá skera úttektarmenn úr því, sem á milli ber.

Þá hafa menn álitið, að skifting á landi gæti valdið þrætum, en það ætla eg sé viðbára, því að það, að menn eigi land saman, getur öllu fremur valdið þrætu. Þar sem að hinu leytinu svo hagar til, að beitilönd liggja saman, þá munu ábúendur ekki krefjast skifta, nema sérstakar ástæður séu til þess.