22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1972 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

89. mál, bygging jarða og ábúð

Pétur Jónsson:

Hinn háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) hefir bent á, að það sé vafasamt, hvað landsdrottinn þýði í frv., þegar kirkjujarðir eiga hlut að máli. Eg vil ráða nefndinni til þess að athuga þetta og ráðfæra sig við lögfróðan mann um þetta efni.

Þá þótti hinum háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) athugavert ákvæði 2. gr. og djarflegt nýmæli. Eg skal játa, að þetta er nokkuð djarflegt nýmæli viðvíkjandi einstakra manna eignum. En gagnvart landssjóði er þetta ekki nýmæli. Það hefir einmitt verið veittur byggingarstyrkur á þjóðjörðum í samræmi við þessi ákvæði, og bætir það mjög úr misrétti, sem góðir leiguliðar verða fyrir með húsabætur sínar.

Þegar eg var í milliþinganefndinni í landbúnaðarmálinu, átti eg kost á að kynna mér ýmislegt ástand leiguábúðar hér á landi, af skýrslum þeim, er stjórnin hafði safnað um þau efni, svo sem um tölu og verð jarðarhúsa, um ábúðartíma leiguliða o. s. frv. Kom þá í ljós,

að verð jarðarhúsa á hinum einstöku jörðum er alveg ótrúlega lágt, og furðu lítill hluti af verði þeirra húsa, sem jörðin þarf og ýmsar leigujarðir hafa. Og einna verst er þessu farið á eignum einstakra manna, eins og öðru sem að leigukjörunum lýtur, svo sem stuttum og stopulum ábúðartíma. Sjálfur þekki eg þetta einnig allvel, bæði sem umboðsmaður jarða og úttektarmaður oft og tíðum. Get eg bent á, að það mun vera algengt, að baðstofan sé óþiljuð og auðvitað öll önnur jarðarhús. Allar þiljur eru eign leiguliðans nema þaksúðin, ef hún er til, jafnvel fjalirnar í gólflnu eru oft leiguliða eign, þó fjós sé undir pallinum, svo að baðstofan, sem jarðarhús er eiginlega bara fjós. Þiljaða gestastofu er ef til vill ekki óhjákvæmilegt að hafa, en eitthvert hús þarf þó til að geyma í muni sína óskemda, og óþiljað má það ekki vera. Þeir verða ekki allir geymdir í baðstofunni, þó hún væri þiljuð. Þegar nú framhús eða stofa fylgir, þá fylgja þær jörðinni næstum aldrei þiljurnar innanvert, heldur einungis þilið fram á hlaðið. Þannig er háttað kjörum leiguliða um jarðarhús. Þeir verða að byggja og eiga húsin sjálfir að miklu leyti.

Á hinn bóginn er leigumáli jarða svo lágur víðast hvar, að ekki verður heimtað af landsdrotnum, að leggja til hæfileg jarðarhús án afgjaldshækkunar. Hinsvegar er það kunnugt, að leiguliðar eru á ekkert jafn ófúsir, og hækkun jarðarafgjalds. Leiguliðar vilja oft heldur illa húsaða en vel húsaða jörð, ef leigumálinn er talsvert lægri. En þetta er skaðlegur hugsunarháttur, og ekkert stendur eins mikið í vegi fyrir húsabótum og þessi hugsunarháttur. Niðurstaðan verður sú, að trassarnir hafa hagnaðinn af niðurníðslunni, en góðu og atorkusömu mennirnir borga tvöfalt: niðurníðslu hinna, sem aldrei er fullmetin við jarðarúttekt, og svo þær umbætur húsa, sem tímans kröfur heimta. Hér þarf umbóta við, og það má ekki sífelt dragast úr hömlu, og bíða eftir því, að þessi hnútur leysist að allra skapi og meiðslalaust. Það er sannfæring mín, að hér verði að ríða djarflega á vaðið og höggva þennan Gordionsknút í sundur.

Helzta ráðið til þess að kippa þessu máli í betra horf, virðist mér nú það, að skylda landsdrotna til þess að leggja til nauðsynleg bæjarhús á þann hátt, sem frumv. mælir fyrir, gegn samsvarandi afgjaldshækkun. Þá festist afgjaldshækkunin við jörðina með fúsum vilja leiguliða.

Æskilegt væri, ef þar við bættist, að stofnuð væri samvinnufélög í sveitum til þess að létta fyrir einstaklingum, að koma upp nauðsynlegum, en hagkvæmum og endingargóðum bæjarhúsum, t. d. baðstofum.

Á Þýzkalandi eru byggingarsjóðir mjög margir eða félög í þessa átt, og geta meðlimir þeirra fengið hús sín bygð án þess að borga annað en árlegt iðgjald. Eg hefi þá trú, að þess konar félög geti átt hér við, eða þá, að sveitafélögin taki að sér sama hlutverk. Tel eg það vænlegra til framkvæmda, en hugmynd þá, er hv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) hreyfði. Það getur verið, að leiguliðar fari nokkuð djarft í byggingum, ef frumv. þetta verður að lögum. En í 3. grein er sleginn sá varnagli, að landsdrottinn getur haldið þessu nokkuð í skefjum, ef hann leggur fé til byggingarinnar. Auk þess er skipun úttektarmanna trygging fyrir því, að hófs muni gætt.