22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (2382)

89. mál, bygging jarða og ábúð

Framsögum. (Stefán Stefánsson):

Það er eftir bendingum, sem komu fram við 2. umr. þessa máls, að nefndin hefir leyft sér að koma með nokkrar breytingar á frv.

Við 2. grein hefir nefndin komið fram með tillögu, til þess að skýra nánar það atriði, hver svari til húsabóta, svo hljóðandi, að »sé jörðin þjóðeign, svarar umboðssjóður til húsabóta, en kirkjujarðasjóður á kirkjujörðum«. Nefndinni virtist öllu réttara, að hér væri nefndur umboðssjóður þjóðeigna, en landssjóður, sem ætti að greiða þennan kostnað, því auðvitað mundi sá kostnaður takast af árstekjum umboðanna, og þá dragast frá þeirri upphæð, er rynni í landssjóð. Hið sama á sér einnig stað hvað húsabótakostnað snertir á kirkjueignum, að hann sé greiddur af árlegum eftirgjöldum, áður en þau eru afhent til prestlaunasjóðs. Þetta vona eg, að ekki þurfi frekari skýringar.

Hin breytingartillagan er við 6. gr. Frumvarpið gefur hverjum ábúanda skilyrðislausan rétt til skifta á öllu landi. Breytingartillagan er í því fólgin, að þegar um engi og slægjur er að ræða, þá getur hver ábúandi um sig krafist skifta á þeim til slægna, sömuleiðis um þann hluta bithaga, sem taka á til ræktunar, enda sé hann í samhengi við tún jarðarinnar og girtur gripheldri girðingu. En beitilandi getur hann því að eins krafist skifta á, að hann girði það innan tveggja ára, frá því skifti voru gerð. Þetta þóttu nauðsynleg skilyrði, því þótt beitilandi væri skift, þá mundi það samt sem áður verða notað í sameiningu og skifti þess vegna þýðingarlaus, nema landið væri girt.

Fleiri bendingar, sem komu fram við 2. umr. gat nefndin ekki tekið til greina. Vér nefndarmenn lítum svo á, að þetta sé afarmikið nauðsynjamál og væntum þess, að deildin samþykki breytingarnar og frv. í heild sinni.