17.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

96. mál, botnvörpulagaundanþága

Jón Sigurðsson:

Eins og kunnugt er, var þessi undanþága veitt á síðasta þingi íslenzkum botnvörpungum, vegna þess, að óþægilegt er fyrir þá, að taka hlerana inn í hvert skifti, sem þeir koma inn í landhelgi.

Nefnd sú, er skipuð var í málið, komst að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að veita þessa undanþágu vegna þess að fyrir því væru góðar og gildar ástæður. Hlerarnir á botnvörpungunum er ekkert leikfang og ekkert barnagaman að vera sífelt að bisa við þá.

Þegar bannið gegn því að hafa hlerana útbyrðis í landhelgi, var leitt í lög voru engir íslenzkir botnvörpungar til. En nú eru komnir margir íslenzkir botnvörpungar og mun það vera arðvænleg útgerð. Er því ekki vert að íþyngja henni að óþörfu með frumv. þessu.

Háttv. flutningsmaður (B. Kr.) sagði, að hann hefði borið frumv. þetta fram, samkvæmt ósk kjósenda sinna. Eg get trúað því, að þeir sjái ofsjónum yfir vexti og velmegun botnvörpuútgerðarinnar, en slíkt mun þingið ekki gera, enda veit eg að það muni vilja styðja þennan atvinnuveg af fremsta megni. Eg tel það óforsvaranlegt af þinginu, að fara nú að breyta lögunum frá síðasta þingi, þar sem þau einmitt gera og hafa gert gagn.

Háttv. flutningsmaður (B. Kr.) sagði, að þau hafi verið misbrúkuð. En á meðan slíkt er ekki sannað, er alls engin ástæða að taka það til greina, heldur á að taka því sem hverri annari sögu frá »Gróu á Leiti« og vísa því heim á sína sveit.

Eg vona, að háttv. deild felli frumv. þetta og er því óþarft að setja það í nefnd.