17.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1981 í B-deild Alþingistíðinda. (2390)

96. mál, botnvörpulagaundanþága

Jón Þorkelsson:

Það er svo langt frá því að eg sé á móti íslenzkum botnvörpuveiðum, þar sem eg á síðasta þingi flutti einmitt þetta mál um að botnvörpungunum væri veitt þessi undanþága. En það er hins vegar sjálfsagt, að hjálpa bátafiskiveiðunum, ef þær verða fyrir ólögmætum ágangi. Þess vegna verður að taka þessu máli með viti og athuga það með skynsemi.

Mér þótti leitt að heyra, að háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) skyldi skýra rangt frá samþyktum þingmálafundanna hér. Mál þetta var felt á 1. fundinum, en samþykt á hinum fjórum. Það hafa einnig komið kærur úr Borgarfjarðarsýslu yfir því, að botnvörpungarnir hafi misbrúkað undanþágu þá, er síðasta þing veitti þeim. Mér finst því full ástæða til að skipa nefnd í málið og athuga vel, hvort kærur þær og kvartanir, er fram hafa komið, séu á rökum bygðar eða ekki. Þetta er skylt að gera og það má þingið ekki láta undir höfuð leggjast.

Það er bezt að athuga mál þetta í nefnd. Því að þótt ýmsir þingm, segi þetta sé á engum rökum bygt, þá trúi eg því betur, ef nefnd, sem fjallað hefir um málið segir það. Þess vegna legg eg til, að nefnd sé sett í málið.