22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (2408)

112. mál, merking á kjöti

Pétur Jónsson:

Það er enginn vafi á því, að frumvarp þetta, jafn vel eins og það kom frá dýralækninum, er nauðsynlegt.

Ef kjötið á að stimplast heilbrigðisvottorði, þá verður að vernda stimpilinn, svo menn fái þá tiltrú til hans, sem hann á að hafa. En eins og háttar hjá okkur, að við höfum ekki nema tvo dýralækna, þá nær kjötskoðun lærðra dýralækna skamt.

Það er mikið vafamál, hvort stimplun sú, sem hér hefir farið fram, gerir betur en borga sig, meðan ekki eru tök á því, að dýralæknir stimpli mest alt vel verkað kjöt, sem út er flutt. Það er alls óvíst, að verðhækkunin á stimplaða kjötinu jafni sig á móti því, sem það óstimplaða lækkar í verði. Stimplun þessi er eins og hver önnur »reklame«, ekki til annars en gylla vöruna í augum kaupanda; stimplunin bætir hana ekki, því hér er engin sýki í kjöti, og hefir aldrei orðið vart við neina sýki í því kjöti, sem út hefir verið flutt. En í samkepni kjötsins sín á milli erlendis, er hætt við að hið óstimplaða kjöt líði við þess konar »reklame«, eins og hitt græðir eða jafnvel meira.

Meðan við ekki höfum nema tvo dýralækna, þá er ekki hægt að stimpla nema lítið af því kjöti, sem út er flutt, og það hefir ekki verið bent á neina leið, til þess að ráða bót á þessu, nema þá, sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Það hafa gengið 20 ár til þess að fá þessa tvo dýralækna og hefir þó ávalt verið veittur styrkur á fjárlögunum til dýralæknaefna. Ef það ganga önnur 20 ár til þess að fá aðra tvo, þá yrði það nokkuð langt að bíða fyrir þá, sem þurfa að láta stimpla kjöt sitt í haust og næsta haust o. s. frv. En ef við ættum að fá dýralækna frá útlöndum, þá mundu þeir verða dýrir, svo það væri hæpið það bæri sig. Auk þess óvíst, að við eigum kost á öðrum dýralæknum en þeim, sem væru atvinnulausir, af því þeir þættu lítt hæfir. Kjötskoðun slíkra manna mundi því ekki vekja meiri tiltrú, en þó við hefðum einhverja ólærða menn, sem lært hefðu hjá dýralækni að skoða kjötið og þekkja úr þá kroppa, sem grunsamir eru. Eg held því, að þetta ákvæði frv. mundi gera töluvert gagn. Þegar einn dýralæknir getur skoðað 600 kroppa á dag, þá er það varla svo vandasamt verk, að skynsamur og aðgætinn maður, sem hefði verið við kjötskoðun hjá dýralækni og fengið tilsögn hans, gæti ekki þekt þá kroppa frá, sem grunsamir væru. Ef þar að auki stimplunin er bundin við vel verkað kjöt eingöngu, eins og sjálfsagt er, þá hefir stimplunin tvöfalda þýðingu, að sínu leyti eins og vottorð fiskimatsmanna.

Eins og tillagan liggur fyrir, þá er það á valdi stjórnarinnar, hvort hún »autoriserar« þessa menn, sem tekið hafa próf hjá dýralækni til þess að skoða kjötið. Og hún myndi ekki fá öðrum en skynsömum mönnum stimpilinn í hendur, og slíkt mundi verða allmikils metið á erlendum markaði.