22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

112. mál, merking á kjöti

Bjarni Jónsson:

Eg álít þessa skottuskoðun, sem frv. gerir ráð fyrir, alveg gagnslausa; hún mundi enga tiltrú hafa erlendis, og það er þó tilætlunin með skoðuninni, að hún geri erlenda menn örugga og þeir séu ekki hræddir um, að þeir kaupi sjúkt kjöt. Okkar vegna þarf ekki að stimpla kjötið, við erum ekki hræddir við að borða það, þó það sé ekki stimplað. Það er ekki til neins að bera á móti þessu, því í útlöndum hafa menn ekki tiltrú til skottulækna. Það kjöt, sem þessir skottudýralæknar stimpluðu, mundi í útlöndum aldrei verða álitið annað en nr. 2. Þess vegna væri það ef til vill hyggilegt, að stimpla kjötið ekki fyr en við höfum fengið svo marga dýralækna, að það sé hægt að stimpla alt það kjöt, sem út er flutt. Hitt væri ófært, að fá þessum mönnum, sem ekki bera skynbragð á, hvort kjötið er sjúkt eða ekki, stimpil dýralæknis í hendur, því þá mundi dýralæknir óðara taka upp nýjan stimpil.