14.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

69. mál, utanþjóðkirkjumenn

Steingr. Jónsson:

Út af því, sem hv. 5. kgkj. sagði um frumvarp þetta og meðferð nefndarinnar á því, vil eg leyfa mér að segja nokkur orð.

Það er að vísu rétt, að stjórnarskráin gerir ráð fyrir trúarbragðafrelsi á landi hér, en að það þó sé nokkru bundnara en háttv. 5. kkj. helt fram, sér maður bezt á 45. gr. stjórnarskrárinnar. Eg get tekið það fram, að þó þetta umrædda ákvæði stjórnarfrumvarpsins hefði haldist óbreytt, hefði um litlar eða engar réttarbætur verið að ræða; en með því væri raskað svo verulega fornum og viðurkendum rétti kirkjunnar, að þar væri beint farið í bága við 45. grein stjórnarskrárinnar, sem heitir þjóðkirkjunni vernd sinni, og með því hefðu allar bændakirkjur getað komist á vonarvöl. Eg vildi gera stuttlega grein fyrir því, hvers vegna eg var með í því að fella allar hinar greinarnar, en halda þeirri fimtu. Viðvíkjandi ákvæðum stjórnarfrumvarpsins, að því er þau snerta laun prestanna, er það að segja, að þau hefðu þá öll komið beint á landsjóðinn, þar sem auðvitað hefði þurft að bæta prestlaunasjóðnum upp hallann á einhvern hátt. Eg skal játa það, að þetta ákvæði hlynnir heldur að þjóðkirkjunni, en það er ekki nema bein afleiðing af þeirri löggjöf, sem vér búum undir. Þá get eg ekki með nokkru móti fallist á það, er háttv. 5. kkj. sagði, að með þessu sé verið að setja slagbrand fyrir fríkirkjuhreyfinguna í landinu; eg get með eins miklum rétti sagt, að þetta ákvæði væri einungis sett til þess, að söfnuðunum og kirkjum þeim, er máske standa í byggingarákvæðum, sé ekki stofnað í bersýnilegan voða; annars verð eg að líta svo á, að það sé engan veginn nokkur löggjafarnauðsyn, að maður, sem segir sig úr þjóðkirkjunni, eigi heimting á, að fá útborgaðan hluta úr sjóðeigninni, eins og mér skildist háttv. 5. konungkj. halda fram. Það er alveg hárrétt, sem 5. kgkj. hélt fram, að kirkjan er lögpersóna, og þar af leiðandi ekki eign neinnra vissra manna, en það get eg ómögulega skilið, að nokkrum geti dottið í hug, að t. d. maður, sem fer alfarinn til annara landa, skuli samt sem áður, fá einhverja vissa upphæð af þjóðareigninni greidda ef hann yfirgefur ættjörðina